Ítrekað dæmdur fyrir brot gegn barnsmæðrum sínum

Konan sagði fyrir dómi að hún þyrði varla úr húsi, …
Konan sagði fyrir dómi að hún þyrði varla úr húsi, sérstaklega þar sem maðurinn hefði flutt í næsta nágrenni við sig. AFP

Karlmaður hefur verið dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, sem bætist við fyrri dóma sem hann hefur hlotið, fyrir hótanir gagnvart fyrrverandi maka sínum og fyrir brot gegn nálgunarbanni sem hafði verið sett á samskipti hans við konuna. Maðurinn hefur áður hlotið dóma fyrir álíka brot gagnvart annarri fyrrverandi kærustu sinni og barnsmóður.

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að brot mannsins hafi átt sér stað í ágúst og september árið 2017. Hafði hann á þessum tíma verið í mikilli neyslu og lýsti því fyrir dóminum að þetta ár væri í þoku.

Ósáttur eftir að hafa ekki fengið að hitta tvíburana

Maðurinn og konan áttu í sambandi í nokkra mánuði og á þeim tíma varð hún ólétt að tvíburum. Hættu þau saman áður en þeir komu í heiminn, en maðurinn var ósáttur við þau málalok. Fram kemur í dóminum að konan hafi verið með forsjá barnanna og að maðurinn nyti umgengnisréttar að því gefnu að hann sýndi fram á að vera ekki undir áhrifum með því að fara í fíkniefnapróf.

Í ágúst þetta ár átti maðurinn að hitta tvíburana en var ósáttur við fyrirkomulag fundarins. Svaraði konan því þá til að hann fengi ekki að hitta tvíburana. Hringdi maðurinn í kjölfarið í aðra fyrrverandi kærustu sína og barnsmóður og bað hana um að koma skilaboðum til móður tvíburanna. Er það sú kona sem maðurinn hafði verið dæmdur áður fyrir ofbeldi gegn sem og að brjóta nálgunarbann.

Hótaði að „fokking stúta henni“

Í símtalinu, sem konan tók upp, hótaði maðurinn að „fokking stúta henni“ ef hann fengi ekki tvíburana og að hann ætti eftir að „snappa aftur á þetta fokking ógeð“. Sagðist hann jafnframt langa „að fokking drepa hana“ og að hann myndi „fokking brjálast“ ef sú kona myndi ekki tala við móður tvíburanna og biðja hana um „hætta þessu fokking kjaftæði“.

Í kjölfarið á þessum hótunum var sett nálgunarbann á manninn, en hann rauf það annars vegar með „poti“ á Facebook og síðar með sjö skilaboðum sama daginn þar sem hann sagðist sitt á hvað elska konuna og börnin, sakna þeirra og óska eftir fyrirgefningu og svo annars vegar að segja hana hafa svikið sig og kalla hana og nýjan kærasta illum nöfnum.

Hafði konan meðal annars sagt í skýrslutöku hjá lögreglu að hún þyrði varla úr húsi, sérstaklega þar sem maðurinn hefði flutt í næsta nágrenni við sig.

Full ástæða til að taka hótanirnar alvarlega

Í dómi héraðsdóms segir að sannað þyki að hann hafi hótað konunni. „Það er álit dómsins að hótanir þær sem féllu í símtalinu 11. ágúst hafi verið grófar og augljóslega til þess fallnar að vekja hjá brotaþola ótta um líf sitt og velferð, ekki síst þar sem ákærði hafi í nóvember 2016 ruðst inn á heimili hennar með líkamlegu ofbeldi.“ Telur dómurinn því fulla ástæðu til að taka hótanirnar alvarlega.

Einnig þykir sannað að hann hafi brotið gegn nálgunarbanninu með því að hafa sett sig í samband við konuna á ný og var ekki tekið mark á skýringum hans að hann hefði ekki vitað af nálgunarbanninu.

Ítrekuð brot gegn barnsmæðrum sínum

Er maðurinn því sem fyrr segir dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, sem er hegningarauki við fyrri dóma mannsins. Hafði hann árið 2014 verið dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir líkamsárás gegn fyrrverandi maka sínum og barnsmóður, konunni sem tók upp símtalið. Sama ár hlaut maðurinn hegningarauka við þann dóm fyrir aðra árás á sömu konu.

Árið 2016 hlaut maðurinn svo 12 mánaða dóm fyrir brot gegn nálgunarbanni og líkamsárás aftur á sömu konu, en auk þess var í þeim dómi að finna brot gegn valdstjórn. Ári síðar var dómur mannsins hækkaður upp í 18 mánuði fyrir líkamsárás gegn síðari konunni, sem kærði manninn í þessu máli, en einnig brot gegn nálgunarbanni, húsbrot og eignarspjöll. Það mál er nú í áfrýjunarferli.

Við ákvörðun refsingar er tekið fram að verulegur dráttur hafi verið á málinu sem ekki sé hægt að kenna manninum um. Þá er einnig horft til þess að maðurinn hafi í dag snúið við blaðinu, sé kvæntur og í fastri vinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert