Leggur áherslu á samstarf EES í baráttunni

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra mbl.is/​Hari

„Hljóðið var bara gott í mönnum. Þetta er fyrsti fjarfundurinn sem haldinn er í EES-ráðinu en einn af fjölmörgum slíkum sem ég hef tekið þátt í. Allir eru að eiga við það sama en málin mjakast í rétta átt, rétt eins og hjá okkur.“

Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í Morgunblaðinu í dag um fund EES-ráðsins í gær. Hann tekur fram að fjarfundir hafi augljósa kosti en einnig þann galla að menn ræða ekki saman með sama hætti og þegar fólk standi augliti til auglitis.

Utanríkisráðherrar Íslands, Noregs og Liechtenstein og fulltrúar Evrópusambandsins sátu fundinn. Viðbrögð ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu við kórónuveirufaraldrinum voru í brennidepli.

Guðlaugur sagði frá stöðunni hér á landi og hvernig tekist hefði að bæla faraldurinn niður en sagði einnig frá efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins. „Ég legg áherslu á mikilvægi góðs samstarfs milli ríkja EES-svæðisins í baráttunni við faraldurinn, meðal annars hvað varðar gagnkvæma aðstoð við heimflutning íbúa sem staddir eru erlendis og með því að efla bein samskipti milli einstakra ráðherra EFTA-ríkjanna innan EES annars vegar og ESB-ríkja hins vegar,“ sagði Guðlaugur Þór í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert