Leit hafin aftur að Andris

Andris er Lithái á sextugsaldri.
Andris er Lithái á sextugsaldri.

Í síðustu viku hófst leit að nýju að Andris Kalvans, sem talið er að hafi týnst í Hnappadal á Snæfellsnesi 30. desember síðastliðinn. Frá þessu er greint á vef Skessuhorns, fréttaveitu Vesturlands.

Hætta þurfti leit að Andris í janúar vegna erfiðra veðurskilyrða, en samkvæmt frétt Skessuhorns fór lögreglan á Vesturlandi ásamt björgunarsveitarmönnum að Hrútaborgum, þar sem talið er að Andris hafi verið, 19. maí síðastliðinn.

Ekið var þangað á sexhjólum og dróna flogið þaðan yfir stórt svæði, til að leita mannsins og skoða skilyrði. Myndskeiðin úr drónanum hafa síðan verið yfirfarin. Að sögn lögreglu hefur leitin ekki borið árangur enn sem komið er. Skilyrði til leitar eru enn nokkuð erfið og kom það viðbragðsaðilum á óvart hversu mikill snjór er enn á svæðinu. Leit verður haldið áfram þar til maðurinn finnst, að sögn lögreglu,“ segir í frétt Skessuhorns.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segist í samtali við mbl.is hafa heyrt af málinu en að engar björgunarsveitir hafi enn verið formlega kallaðar út til leitarinnar. Ekki náðist í lögregluna á Vesturlandi vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert