Réttað í Mehamn-máli í september

Horft yfir Mehamn sem er hluti af sveitarfélaginu Gamvik í …
Horft yfir Mehamn sem er hluti af sveitarfélaginu Gamvik í Finnmörk, nyrst í Noregi. Réttarhöldin í haust fara fram í Vadsø þar sem Héraðsdómur Austur-Finnmerkur er til húsa. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Aðalmeðferð Mehamn-málsins hefst fyrir Héraðsdómi Austur-Finnmerkur í Vadsø í Noregi mánudaginn 21. september, tæpu ári eftir að upphaflega var ráðgert að hefja málflutning í byrjun desember í fyrra. Héraðssaksóknari taldi þá að óútgefinni ákæru á hendur Gunnari Jóhanni Gunnarssyni væri ábótavant í máli þeirra Gísla Þórs Þórarinssonar hálfbróður hans sem Gunnari er gefið að sök að hafa skotið til bana aðfaranótt 27. apríl í fyrra á heimili Gísla Þórs í Mehamn.

Ákæra í sex liðum var gefin út 21. janúar og þá ráðgert að réttarhöld hæfust 23. mars sem ekkert varð af vegna kórónuveirufaraldursins.

„Umbjóðandi minn heldur fast við þann framburð sinn að hann sé saklaus af áburði um manndráp af ásetningi [n. forsettlig drap],“ segir Bjørn Gulstad, verjandi Gunnars Jóhanns, í samtali við mbl.is í kvöld.

Fellst á manndráp af gáleysi

„Hann er þess fullviss að skotið hljóp af í kjölfar viðbragðs sem kom honum í opna skjöldu,“ segir verjandinn og á við að Gísli Þór hafi gripið til haglabyssunnar í höndum hálfbróður síns og Gunn­ar þá tekið viðbragð og skotið hann í lærið í ógáti.

„Hann getur vel fallist á manndráp af gáleysi, en því að þarna hafi verið um einhvern ásetning af hans hálfu að ræða vísar hann alfarið á bug og bíður þess að fá að útskýra sína hlið málsins fyrir réttinum,“ segir Gulstad sem einnig ræddi efnisatriði ákærunnar við mbl.is í janúar.

Í þessu húsi bjó Gísli Þór Þórarinsson heitinn og þangað …
Í þessu húsi bjó Gísli Þór Þórarinsson heitinn og þangað heimsótti hálfbróðir hans hann aðfaranótt 27. apríl, að sögn til að skjóta honum skelk í bringu og lesa honum pistilinn. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Skömmu síðar ræddi mbl.is við Mette Yvonne Larsen lögmann, réttargæslumann kærustu Gísla Þórs heitins í málinu, sem sagðist engan veginn geta fallist á að um slys hefði verið að ræða:

„Hann [Gunn­ar Jó­hann] seg­ir að um slys hafi verið að ræða sem mér þykir býsna erfitt að leggja trúnað á. Að kalla það slys þegar þú kem­ur heim til [hálf]bróður þíns, reiður út í hann og með hlaðið skot­vopn. Þá máttu ein­fald­lega reikna með því að eitt­hvað ger­ist. Þú kem­ur ekki með hlaðið skot­vopn ef þú ætl­ar ekki að gera neitt,“ sagði Larsen við mbl.is 31. janúar.

mbl.is