VITA stefnir á Spánarferðir í júlí

Ferðaskrifstofan VITA ætlar að bjóða upp á ferðir til Tenerife …
Ferðaskrifstofan VITA ætlar að bjóða upp á ferðir til Tenerife og Alicante frá og með júlí. AFP

„Við erum búin að vera að bíða eftir þessum fréttum,“ segir Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar VITA. Í gær bárust þær fregnir frá yfirvöldum á Spáni að er­lend­ir ferðamenn sem koma til landsins frá 1. júlí þurfa ekki að fara í sóttkví. VITA hafa borist fjölmargar fyrirspurnir í kjölfarið að sögn Þráins og stefnt er á fyrstu ferðirnar til Alicante og Tenerife í júlí. 

Landa­mæri Íslands verða opnuð 15. júní næst­kom­andi en mikil óvissa ríkir enn hjá ferðaþjónustufyrirtækjum hér á landi varðandi áfangastaði sumarsins. Það skýrist að vissu leyti með ákvörðun spænska yfirvalda. „Við erum í startholunum,“ segir Þráinn. 

Endurgreiðslur fyrir hundruð milljóna króna

VITA hefur fellt niður tugi fluga frá því í mars en nú sér að öllum líkindum fyrir endann á því. Allir viðskiptavinir sem hafa óskað eftir endurgreiðslu hafa fengið hana og segir Þráinn kostnað VITA vegna endurgreiðslna hlaupa á nokkur hundruð milljónum króna. 

Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri VITA.
Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri VITA. Ljósmynd/Aðsend

Að öllu jafna væri búið að selja í 90% ferða til Tenerife í júlí en staðan er óneitanlega önnur nú. „Við munum ekki byrja á því að hafa fulla dagskrá heldur sjá hvernig markaðurinn tekur því, en við erum með bókanir í kerfinu sem fólk er að bíða eftir hvort verði felldar niður,“ segir Þráinn. Þeim viðskiptavinum verður gefinn kostur á að hætta við bókaða ferð verði hún á áætlun. Það eru einna helst viðskiptavinir sem eru í áhættuhóp og ætla að halda kyrru fyrir þetta sumarið að sögn Þráins. „En mjög margir ætla að fara í fyrstu ferð,“ bætir hann við.

Dagaspursmál hvenær fyrsta flugið verður staðfest

Þráinn átti fund með ferðamálayfirvöldum á Kanarí og Tenerife í vikunni og segir hann samskiptin góð. 

„Við erum að sjá hvernig þetta opnast hjá þeim, það er hvaða hótel, hvernig aðstaðan er varðandi matsölustaði og ströndina. Við erum að fá upplýsingar um þetta núna og erum að fara yfir hvenær næsta flug verður hjá okkur,“ segir Þráinn. Stefnan er fyrst um sinn sett á Tenerife og Alicante og segir Þráinn það vera dagspursmál hvenær fyrsta flugið í júlí mun liggja fyrir. 

VITA hafa borist fyrirspurnir frá Íslendingum um Spánarferðir í sumar. …
VITA hafa borist fyrirspurnir frá Íslendingum um Spánarferðir í sumar. „Mjög margir ætla að fara í fyrstu ferð,“ segir Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri VITA. AFP

Á fundinum bar það meðal annars á góma að opna á ferðalög milli landanna þar sem fá smit hafa greinst á Tenerife sem og á Íslandi. Þráinn bendir á að á meðan Spánn hefur farið illa út úr kórónuveirufaraldrinum er ekki hið sama að segja um Kanaríeyjar. „Við erum að taka stöðuna á því hvernig heilbrigðisyfirvöld á Spáni taka á málunum.“

Vinnan þessa dagana snýst um að taka saman upplýsingar frá hótelum sem VITA hefur verið í viðskiptum við hingað til um hvort og hvenær þau stefna á opnun. „Við erum að taka þetta saman til þess að geta farið af stað og auglýst mjög fljótlega hvenær fyrstu ferðir verða,“ segir Þráinn.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert