27 milljarðar króna í laun á uppsagnarfresti

Nýju frumvarpi fjármálaráðherra til fjáraukalaga var dreift á Alþingi í …
Nýju frumvarpi fjármálaráðherra til fjáraukalaga var dreift á Alþingi í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lagt er til í nýju frumvarpi fjármálaráðherra til fjáraukalaga að heildargreiðslur úr ríkissjóði vegna hlutabótaleiðarinnar á tímabilinu 15. mars til 31. ágúst verði 34 milljarðar króna. Búist er við því að um 14 þúsund manns nýti sér úrræðið á áðurnefndu tímabili.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir 27 milljarða króna fjárheimild til greiðslu launa á uppsagnarfresti. Um er að ræða kostnað vegna úrræðis sem fjármálaráðherra kynnti um miðjan maímánuð þar sem lagt er til að ríkissjóður greiði laun og lífeyrissjóðsgreiðslur starfsmanna sem sagt hefur verið upp störfum.

Í frumvarpinu er miðað við að heildarkostnaður ríkissjóðs vegna einstaklinga sem fóru í sóttkví verði tveir milljarðar króna og að endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi verði rúmlega tveir milljarðar króna.

Samtals er lögð til 65 milljarða króna aukning á áður samþykktum fjárheimildum.

Einnig er lögð til nánari skipting á 1.150 milljóna króna framlagi til fjárfestingar í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Hún er á þá leið að 500 milljónir verði veittar til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins vegna veitingar sérstakra mótframlagslána til sprota- og nýsköpunarfyrirtækja sem hafa orðið fyrir skakkaföllum vegna heimsfaraldursins en 650 milljónir fari til Kríu, sjálfstæðs sjóðs í eigu ríkisins sem fjárfestir í áðurnefndum fyrirtækjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert