Lítum á þetta sem tímabundið ástand

Ásgeir segir flugumferð hafa minnkað allverulega og sé einungis um …
Ásgeir segir flugumferð hafa minnkað allverulega og sé einungis um 10 til 20 prósent af því sem hún venjulega er á þessum tíma árs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framkvæmdastjóri Isavia ANS, þar sem öllum ráðningarsamningum við flugumferðarstjóra í flugstjórnarmiðstöð verður sagt upp fyrir mánaðamót, segir fyrirtækið hafa viljað forðast að slíta ráðningarsambandi við flugumferðarstjóra. Hinn kosturinn hefði verið að segja upp allt að 20 til 30 flugumferðarstjórum í fullu starfi.

Uppsagnirnar ná til hundrað flugumferðarstjóra, sem allir verða svo ráðnir að nýju í skertu starfshlutfalli.

„Um leið og þeim er sagt upp verða þeim boðnir nýir ráðningarsamningar. Við munum endurráða alla en flesta með minnkað starfshlutfall, þeir fara að lágmarki niður í 75% starfshlutfall. Við völdum þessa leið til að koma í veg fyrir að grípa þyrfti til uppsagna,“ segir Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri Isavia ANS, í samtali við mbl.is. 

Ásgeir segir flugumferð hafa minnkað allverulega og sé einungis um 10 til 20 prósent af því sem hún venjulega er á þessum tíma árs og hafa tekjur félagsins, sem er dótturfélag Isavia, dregist verulega saman.

„Við teljum þetta frekar mildar aðgerðir af því við erum ekki að segja upp fólki eða rjúfa ráðningarsamband. Meiningin er að þegar flugumferð fer að aukast upp á nýtt, þá munum við auka starfshlutfall aftur upp í 100%. Við erum ekki að lækka laun eða breyta kjarasamningi. Við lítum á þetta sem tímabundið ástand og við þurfum að huga að því að vera tilbúin að taka við umferðinni þegar hún kemur aftur og þess vegna viljum við endilega halda í okkar starfsfólk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert