Skipar starfshóp um uppbyggingu Erróseturs

Óhætt er að segja að flestir Íslendingar kannist við verk …
Óhætt er að segja að flestir Íslendingar kannist við verk eftir Erró. mbl.is/Einar Falur

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur skipað starfshóp um uppbyggingu og starfsemi Erróseturs á Kirkjubæjarklaustri. Til stendur að koma upp safni eða sýningu um líf og uppvöxt listamannsins.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

„Við viljum miðla okkar menningu, sögu og menningararfi á fjölbreyttan hátt og sem víðast um landið. Það er sérlega ánægjulegt hversu vel hefur tekist til við að byggja upp margvísleg menningarsetur og söfn úti um allt land – þangað er gaman að koma, fræðast og upplifa, fyrir alla fjölskylduna,“ segir Lilja í tilkynningu.

„Verkefni af þessu tagi gæti líkað skapað jarðveg fyrir frjótt og gott samstarf, t.d. við listasöfnin og Listaháskóla Íslands,“ segir hún einnig.

Ólst upp á Kirkjubæjarklaustri

Myndlistamaðurinn Erró hefur á löngum ferli skapað sér orðstír sem einn af leiðandi popplistamönnum í Evrópu og hefur fengist við fjölbreytt viðfangsefni.

Erró ólst upp á Kirkjubæjarklaustri en flutti til Reykjavíkur árið 1949. Hann útskrifaðist úr teiknikennaradeild árið 1952 áður en hann hélt til frekara náms í Noregi og á Ítalíu.

Markmiðið að koma upp safni eða sýningu 

Markmið verkefnisins er að koma upp safni og/eða sýningu um líf og uppvöxt listamannsins og miðla listferli hans í máli og myndum. Hugmyndin á sér nokkurn aðdraganda en áhugafólk um stofnun Erróseturs kynnti áform sín um málið árið 2011 og árið 2012 var Félag um Errósetur stofnað.

Starfshópinn skipa Eiríkur Þorláksson formaður, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Eva Björk Harðardóttir oddviti, fulltrúi Skaftárhrepps, og Rúnar Leifsson, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Erró, Rockwell Painting My Autoportrait, 2009. Verkið er í eigu …
Erró, Rockwell Painting My Autoportrait, 2009. Verkið er í eigu Listasafns Reykjavíkur. Ljósmynd/Stjórnarráðið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert