Andlát: Alfreð Þorsteinsson

Alfreð Þorsteinsson.
Alfreð Þorsteinsson.

Alfreð Þorsteinsson fv. borgarfulltrúi lést á sjúkrahúsi í Reykjavík í gær, 27. maí.  Alfreð fæddist í Reykjavík 15. febrúar 1944 og var einn fimm sona hjónanna Ingvars Þorsteins Ólafssonar verkamanns og Sigríðar Lilju Gunnarsdóttur.

Hann var í Austurbæjarskóla og stundaði nám við Kennaraskóla Íslands um skeið. Alfreð var blaðamaður við dagblaðið Tímann 1962-77 og var forstjóri Sölu varnarliðseigna 1977-2003. Hann var varaborgarfulltrúi fyrir Framsóknarflokkinn 1970-71 og 1986-94 og borgarfulltrúi 1971-1978 og aftur 1994-2006.

Á vettvangi Reykjavíkurborgar sat Alfreð í fræðsluráði, heilbrigðisráði, stjórn Innkaupastofnunar og var formaður hennar 1994-98. Hann átti sæti í umferðarnefnd, var formaður stjórnar Veitustofanna 1994-99 og stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur 1999-2006 á miklum uppbyggingatíma í sögu þess fyrirtækis. Þá var Alfreð formaður stjórnar fjarskiptafyrirtækisins Línu-Nets 1999-2005, sat í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar 2006-2010 og var formaður lengst af þeim tíma.

Alfreð æfði og keppti í knattspyrnu með Fram á barns- og unglingsárum og þjálfaði síðan yngra flokka félagsins um skeið. Hann var formaður Fram 1972-76 og 1989-94, sat í stjórn ÍSÍ 1976-86 auk þess að gegna ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir íþróttahreyfinguna. Alfreð var jafnframt einn af heiðursfélögum Fram og ÍSÍ.

Á árunum 1985-94 var Alfreð formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur jafnframt því sem hann sat í miðstjórn Framsóknarflokksins og í stjórn FUF um árabil. Var formaður Varðbergs, félags ungra áhugamanna um vestræna samvinnu, 1978-80 og sat síðar í stjórn Samtaka um vestræna samvinnu. Þá sat Alfreð í stjórn Landsvirkjunar 1991-95, í stjórn Sparisjóðs vélstjóra frá 1998-2002 og var formaður hans 2001-2002.  

Eiginkona Alfreðs var Guðný Kristjánsdóttir, f. 1949, prentsmiður og setjari.

Dætur Alfreðs og Guðnýjar eru Lilja Dögg, mennta- og menningarmálaráðherra f. 1973, búsett í Reykjavík, gift Magnúsi Óskari Hafsteinssyni, hagfræðingi við atvinnuvegaráðuneytið, og Linda Rós f. 1976, sérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu. Barnabörnin eru þrjú.

mbl.is