Ber að þakka Íslenskri erfðagreiningu

Alma D. Möller landlæknir á fræðslufundi Íslenskrar erfðagreiningar um COVID-19 …
Alma D. Möller landlæknir á fræðslufundi Íslenskrar erfðagreiningar um COVID-19 síðdegis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslendingar hafa mælt meira en allar aðrar þjóðir í heiminum fyrir COVID-19 sjúkdómnum og ber að þakka Íslenskri erfðagreiningu fyrir það. Danir hafa sett sér það markmið að mæla mest allra þjóða en Alma D. Möller landlæknir telur að þeir nái okkur aldrei.

Þetta sagði Alma á fræðslufundi Íslenskrar erfðagreiningar um COVID-19-sjúkdóminn í erindi sem hún kallaði Hin mörgu andlit COVID-19 og sagðist þá vera að vísa til þess hve fjölbreyttur sjúkdómurinn er.

Sjúkdómurinn geti verið einkennalaus hjá sumum en banvænn hjá öðrum. Einkennin séu líka mjög margvísleg, þau geti verið breytileg á milli daga og munur á þeim milli daga.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, setti fundinn og bauð „landlækninn flotta, góða, hlýja og besta af öllum,“ velkominn. Kári hóf mál sitt þó á því að bjóða Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sérstaklega velkomna og þakkaði henni fyrir að koma, þrátt fyrir að honum hafi „ekki tekist að sitja á strák sínum“ í gærkvöldi.

Alma sagði að ljóst hefði verið í janúar að um alvarlegan sjúkdóm væri að ræða þegar myndir og fréttir fóru að berast frá Kína. Ekkert bóluefni hafi verið til, engin meðferð og veikindi mikil. Þá strax hafi verið ljóst að þetta væri engin venjuleg flensa.

Alma Möller fer yfir tölfræði milli þjóða.
Alma Möller fer yfir tölfræði milli þjóða. Skjáskot

Mikilvægt hversu snemma var brugðist við

Fór hún yfir það sem við höfum lært síðan þá og nefndi helstu einkenni sem væru hiti, hósti, andþyngsli, bein- og vöðvaverkir, hálssærindi og kvefeinkenni. Einnig tap á lyktar- og bragðskyni. Tölfræði sýni að 5% veikist alvarlega en 80% veikist lítið. Fólki versnar oft skyndilega á degi sjö til níu.

Þá nefndi hún að við hefðum lært að margir geti verið með langvarandi einkenni eftir að hafa veikst og þar mætti nefna hita þreytu, þrekleysi, höfuðverk og svima og jafnvel hárlos. Einkenni geti komið og farið eftir dögum.

Hún fór yfir hversu miklu það skipti að hér á landi hafi verið brugðist snemma við og sagði að fyrsta minnisblað vegna sjúkdómsins hefði verið sent til ráðherra 27. janúar. Við hefðum farið að taka sýni hjá fólki fjórum vikum áður en fyrsta smit greindist og það hafi verið gríðarlega mikilvægt.

Sá einstaki árangur að 57% þeirra sem greindust með sjúkdóminn hér á landi hafi þegar verið í sóttkví hafi einnig verið gríðarlega mikilvægur.

Styrkleikar íslenska heilbrigðiskerfisins væru vel menntað starfsfólk, hugmyndaauðgi, viðbragðsflýtir, samvinna og úthald. Veikleikarnir smæð, mönnun, húsnæði og birgðahald.

mbl.is