„Botnlaus hroki og sjálfsupphafning“

Einar Kárason.
Einar Kárason. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Mér sýnist á ummælum margra vina minna á þessum vettvangi í kvöld, að botnlaus hroki og sjálfsupphafning, með tilheyrandi smásálarskap og fýlu, þyki núorðið merki um sérstaka mannkosti,“ skrifar Einar Kárason, rithöfundur og varaþingmaður Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sína.

Einar er þar vafalítið að vísa í viðtal við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, í Kastljósi sem vakti mikla athygli í gærkvöldi.

Þar sagði hann fyrirtækið ekki ætla að aðstoða við skimun farþega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar ef heilbrigðisráðuneytið heldur þar um stjórnartaumana. Hann gagnrýndi Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra fyrir að hafa ekki haft samband við fyrirtækið vegna verkefnisins og sagði hana hrokafulla.

„Hvaðan það kemur veit ég ekki; þúsund ára bókmenntasaga okkar bendir ekki til þess að þannig sálarmyndir hafi yfirleitt þótt aðdáunarverðar,“ bætir Einar við á síðu sinni.

mbl.is