„Hörmulegt og óskaplega sorglegt“

Fjöldahjálparstöð var opnuð í Hrísey eftir eldsvoðann í morgun. Bæjarstjóri …
Fjöldahjálparstöð var opnuð í Hrísey eftir eldsvoðann í morgun. Bæjarstjóri og forseti bæjarstjórnar á Akureyri heimsóttu íbúa um hádegi í dag. Ljósmynd/Ásthildur Sturludóttir

„Þetta er hörmulegt og óskaplega sorglegt að sjá þennan stærsta vinnustað í eyjunni farinn, það er bara þannig,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, í samtali við mbl.is. Hún sigldi til Hríseyjar í hádeginu ásamt Höllu Björk Reynisdóttur, forseta bæjarstjórnar, til að kynna sér aðstæður og ræða við íbúa eftir brunann í gamla frystihúsinu í morgun. 

Ásthildur og Halla ræddu við slökkviliðsstjórann og eigendur Hrísey Seafood, sem eru með fiskvinnslu í húsinu, auk þess sem þær hittu íbúa í fjöldahjálparstöð sem opnuð var í eyjunni í kjölfar brunans en rýma þurfti stóran hluta eyjunnar um tíma vegna óhagstæðrar vindáttar. 

Eldur kviknaði í frystihúsi fiskvinnslunnar Hrísey Seafood í morgun. Tíu …
Eldur kviknaði í frystihúsi fiskvinnslunnar Hrísey Seafood í morgun. Tíu manns vinna í vinnslunni sem er stærsti vinnustaðurinn á eyjunni. Ljósmynd/Ásthildur Sturludóttir

„Íbúar og eigendur fyrirtækisins eru í áfalli yfir þessu eins og eðlilegt er, en það er alltaf sami hugurinn í fólkinu, það er mikil þrautseigja og mikil samstaða sem maður fann,“ segir Ásthildur. 

Um tíu manns starfa hjá Hrísey Seafood og segir Ásthildur að bæjaryfirvöld muni gera hvað þau geta til að bregðast við áhrifum brunans á atvinnulíf í eyjunni. 

„Við vonumst til að þetta verði tímabundin áhrif og að vinnslan fari aftur af stað, við vonumst til þess. En menn þurfa að sofa á stöðunni og hugsa næstu skref. Að sjálfsögðu þurfum við að styðja við byggðina í Hrísey.“

Slökkvistarf hefur staðið yfir frá því snemma í morgun.
Slökkvistarf hefur staðið yfir frá því snemma í morgun. Ljósmynd/Ásthildur Sturludóttir

Ásthildur segist skynja mikla samstöðu meðal Hríseyinga. „Það er nú bara þannig að í svona litlum samfélögum stendur fólk saman og styður hvort annað.“ 

Slökkvilið er enn á svæðinu til að tryggja að eld­ur blossi ekki aft­ur upp en til stendur að afhenda lögreglu vettvanginn í kvöld. Eldsupptök eru ókunn. 

Sam­kvæmt slökkviliðsstjóra er suður­hluti frysti­húss­ins mikið brunn­inn en ágæt­lega gekk …
Sam­kvæmt slökkviliðsstjóra er suður­hluti frysti­húss­ins mikið brunn­inn en ágæt­lega gekk að verja norður­hlut­ann. Ljósmynd/Ásthildur Sturludóttir
mbl.is