Kári þurfi bara að breyta einni stillingu

Bjarni Benediktsson og Kári Stefánsson.
Bjarni Benediktsson og Kári Stefánsson.

„Ef marka má þetta Kastljósviðtal í gær þá er það eina sem þarf að gerast, að Kári Stefánsson þarf að breyta einni stillingu í símanum sínum.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra á Alþingi í morgun, þegar hann svaraði fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þingmanns og formanns Viðreisnar, sem hún byggði á viðtali við Kára Stefánsson í Kastljósi á RÚV í gær.

„Við hlustuðum á nokkuð merkilegt Kastljós í gær,“ hafði Þorgerður sagt, og benti um leið á að viðtalið hefði afhjúpað að engin skýr áform væru hjá ríkisstjórninni varðandi opnun landamæra.

„Við erum alvön því að ríkisstjórnin er ekkert að hafa samráð við okkur,“ bætti hún við en tók fram að með öllu óskiljanlegt væri að ekkert samráð hefði verið haft við þá sem gætu hjálpað stjórnvöldum að opna landið.

Spurði hún hvort Bjarni teldi það heppilegt að tíminn hefði ekki verið nýttur í að „klukka og tala við“ þá helstu aðila sem sýnt hafi til þessa að geti lagt hönd á plóg.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Eggert

Gegnt lykilhlutverki

Bjarni sagði það öfugmæli að ekki væru áform til staðar. Atriðin sem standi út af séu framkvæmanlegs eðlis. „Ef marka má þetta Kastljósviðtal í gær þá er það eina sem þarf að gerast, að Kári Stefánsson þarf að breyta einni stillingu í símanum sínum,“ sagði Bjarni eins og getið var að ofan.

Kári sagðist í viðtalinu í gær myndu eiga erfitt með að segja nei ef Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir bæði um aðstoð við skim­anir, vegna þess hve sjarmer­andi og skemmti­leg­ur hann væri.

„Ég er bú­inn að blokka sím­ann hans á sím­an­um mín­um,“ sagði hann í fram­hald­inu og sagði ástæðuna þá að þannig gæti Þórólf­ur ekki hringt í hann og beðið hann um þetta.

Bjarni benti á að Kári hefði ekki útilokað að aðstoða stjórnvöld. Íslensk erfðagreining hefði gegnt lykilhlutverki við framkvæmd skimunar á Íslandi.

Stjórnvöld ættu þá erfitt með að spá fyrir um fjölda þeirra sem myndu koma til landsins í síðari hluta júnímánaðar.

Verði staðið faglega að opnun landamæra

Þorgerður steig aftur í pontu og benti á að Bjarni hefði ekki svarað því hvort hann teldi heppilegt að ekki hefði verið haft samráð við til að mynda Íslenska erfðagreiningu.

„Það er spurt hér að því hvort það sé heppilegt að ekki hafi verið leitað til okkar færasta fólks,“ svaraði Bjarni.

„Og ég hef svarað því til að við höfum sýnt það í verki, og það er einmitt það sem við gerum — á því byggir okkar góði árangur. Nú erum við með áætlun um opnun landamæranna, um miðjan júnímánuð, og ég ætla bara að fullyrða það hér, að auðvitað verður staðið faglega að því eins og við höfum gert hingað til.“

mbl.is