Mjög merkilegur árangur án bóluefnis eða lyfja

Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Við sem samfélag höfum náð mjög miklum árangri í baráttunni við COVID-19 án þess að hafa úr almennilegum lyfjum að moða. Það er mjög merkilegt að ná árangri sem við getum verið stolt af án bóluefna eða lyfja.

Þetta kom fram í erindi Más Kristjánssonar, yfirlæknis á smitsjúkdómadeild Landspítalans, á fræðslufundi Íslenskrar erfðagreiningar. Már fjallaði um meðferð COVID-sjúklinga á Íslandi.

Már byrjaði að útskýra stuttlega hvað gerist þegar veiran kemst í snertingu við slímhúð, þá verði viðbragð og það gæti farið vel eða illa. Þegar verst lætur fari veiran ofan í lungun og valdi usla þar. Einnig sé hægt að fá sýkingu af völdum baktería ofan í það.

Frá fræðslufundi Íslenskrar erfðagreiningar um baráttuna gegn COVID-19 sem fram …
Frá fræðslufundi Íslenskrar erfðagreiningar um baráttuna gegn COVID-19 sem fram fór síðdegis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Veiran hefur veikleika sem hægt er að nýta

„Við höfum ekki fullan skilning á því hvers vegna sumir veikjast mjög mikið en aðrir ekki,“ sagði hann og bætti því við að engin sértæk meðferð væri til staðar enn sem komið er.

Hér á Íslandi hefðum við þó náð markverðum árangri með þeim aðgerðum heilbrigðisyfirvalda og með því að koma upp verklagi á Landspítalanum til að koma í veg fyrir smitleiðir þar. Minntist hann á gámana frægu sem voru nokkuð gagnrýndir til að byrja með en hefðu á endanum reynst vel.

Hann sagði sértækar meðferðir í þróun og að ýmislegt hefði verið prófað, bæði hér á landi og erlendis, þar á meðal ýmis lyf. Hann lýsti veirunni þannig að hún væri með ákveðinn lykil sem gengi inn í skráargöt ýmissa fruma. Hún ætti til að mynda greiða leið inn í lungnafrumur.

Hann fór einnig yfir uppbyggingu veirunnar og sýndi á glæru þá veikleika sem veiran hefur og hægt er að notfæra til að þróa meðferðir. Fór hann yfir þau lyf sem hafa reynst hvað best og sagði það vera þau lyf sem koma í veg fyrir að veiran fjölfaldi sig. Remdesivir væri eitt þeirra lyfja.

mbl.is