Segir kröfu Neyðarlínunnar um afsökunarbeiðni ófaglega

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, brást við yfirlýsingu Neyðarlínunnar á …
Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, brást við yfirlýsingu Neyðarlínunnar á Facebook-síðu sinni í kvöld þar sem hún segir kröfu Neyðarlínunnar um afsökunarbeiðni ófaglega. mbl.is/Hari

Ummæli Dóru Bjartar Guðlaugsdóttur, borgarfulltrúa Pírata, um Neyðarlínuna í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun hafa dregið dilk á eftir sér, en Neyðarlínan fer fram á að borgarfulltrúinn biðjist afsökunar „vegna ósannra og meiðandi ummæla hennar“. 

Atvikið sem um ræðir snýst um beiðni um aðstoð vegna ölvunarástands ungra stúlkna sem þegar var komið til lögreglu og sendi hún lögreglubifreið á vettvang. Í þriðja símtali sem barst Neyðarlínunni, þar sem því var lýst að viðkomandi andaði ekki, voru kvaddir til tveir sjúkrabílar sem fóru í forgangsakstri á staðinn. „Var stúlkunum komið til bjargar 8 mínútum eftir að fyrst var beðið um aðstoð sjúkraliða og nokkrum mínútum síðar voru þær komnar á bráðadeild Landspítalans,“ segir í yfirlýsingu Neyðarlínunnar. 

Útkallið hefur verið til umfjöllunar á samfélagsmiðlum þar sem það er m.a. gagnrýnt hversu langur tími leið frá því að kallað var eftir sjúkrabíl þar til hann kom á vettvang. Í yfirlýsingu Neyðarlínunnar segir að Dóra Björt hafi velt því upp hvort viðbrögð neyðarvarðar bæru vott um kvenfyrirlitningu og/eða andúð á útlendingum og sjúkraliðar ekki kvaddir til með forgangi af þeim sökum. 

Í viðtalinu sagði Dóra Björt að þegar fram komi óánægjuraddir, sem hún sagði að virðist eiga við rök að styðjast, þurfi að vera full vissa um að málin séu tekin alvarlega og af þeim dreginn lærdómur. 

Grófar en tilhæfulausar ásakanir

Í yfirlýsingu Neyðarlínunnar segir að ásakanir Dóru Bjartar eigi sér enga stoð í raunveruleikanum heldur hafi hún kosið að setja fram grófar en tilhæfulausar ásakanir á hendur starfsfólki Neyðarlínunnar.  

Dóra Björt brást við yfirlýsingu Neyðarlínunnar á Facebook-síðu sinni í kvöld þar sem hún segir kröfu Neyðarlínunnar um afsökunarbeiðni ófaglega. „Það hryggir mig að Neyðarlínan kjósi að bregðast við af hörku gegn eðlilegri athugun á störfum fyrirtækisins í kjölfar kvartana borgarbúa sem telja sig ekki hafa notið virðingar og sanngirni í samskiptum við Neyðarlínuna.“ Þá segir hún það rangt að hún hafi sagt atvikið ekki tekið alvarlega vegna fordóma við minnihluta.

Fjallað var um málið á fundi mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar í dag. Dóra Björt hvetur Neyðarlínuna til að nota tækifærið til að fara yfir málið af yfirvegun í stað baráttu gegn ímynduðum óvinum. „Neyðarlínan hefur ekki verið sett á sakabekk af mér né borginni. Aðeins hefur verið óskað eftir svörum og skýrum merkjum um að atvikið sé tekið alvarlega og staðfestingu á að ekki sé um kerfisbundið vandamál að ræða heldur einstaka atvik,“ segir hún í færslu á Facebook-síðu sinni.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert