Skapa störf með auknum fjárfestingum

Samþykkt var á stjórnarfundi að auka fjárfestingar Veitna um samtals …
Samþykkt var á stjórnarfundi að auka fjárfestingar Veitna um samtals 2 milljarða króna á árinu 2020. Ljósmynd/Veitur

Veitur gera ráð fyrir að skapa hátt í 200 störf vegna aukinna fjárfestinga í mannaflsfrekum verkefnum. Markmiðið er að viðhalda atvinnustigi í landinu eins og kostur er í kjölfar kórónuveirufaraldursins. 

Samþykkt var á stjórnarfundi að auka fjárfestingar Veitna um samtals 2 milljarða króna á árinu 2020, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Jafnframt var samþykkt að stefna að því að auka fjárfestingar á árinu 2021 um allt að 4 milljarða króna en endanleg ákvörðun um aukningu fjárfestinga á árinu 2021 kemur til afgreiðslu við gerð fjárhagsspár í haust.

Þessar fjárfestingar bætast við áður fyrirhugaðar fjárfestingar Veitna sem nema um 9 milljörðum kr. árlega. Veitur munu því fjárfesta fyrir samtals 11 milljarða króna á þessu ári og líklega 14 milljarða króna árið 2021.

Í Hveragerði verður varmaskiptistöð hitaveitu stækkuð sem auka mun til muna afhendingaröryggi heits vatns til íbúa og fyrirtækja í bænum. Veitur munu einnig á næstunni hefjast handa við byggingu nýrrar 500 m2 starfsstöðvar í nýju iðnaðarhverfi Hveragerðis í Vorsabæ en hún mun þjóna starfsemi fyrirtækisins á Suðurlandi.  

Í Borgarbyggð er áformað að bora nýja borholu vatns við Grábrók og auka lýsingu á neysluvatni auk þess sem endurbætur verða gerðar á vatnsbóli við Hvanneyri. Hitaveituframkvæmdir felast í endurnýjun safnlagna hitaveitu við Deildartungu og endurnýjun á Deildartunguæð við Grjóteyri og Hvanneyri. Mikil uppbygging hefur verið í fráveitu í Borgarbyggð á síðustu árum og verður nú farið í að tengja síðustu húsin í bænum við hana. Gert er ráð fyrir að þessar framkvæmdir kosti 440 m.kr.

Á Akranesi er í bígerð að taka upp nýtt vatnsból og byggð verður ný starfsstöð Veitna á Vesturlandi. 620 m.kr. verður varið í þessi verkefni.

Í Grundarfirði verður sett lýsingartæki við vatnsból og reistar girðingar til að tryggja gæði neysluvatns. Einnig verður farið í viðhald á vatnstanki. Áætlað er að þessi verkefni kosti um 60 m.kr.

Afla á viðbótarvatns í Stykkishólmi og koma upp varavatnsbóli fyrir bæinn. Það kostar 70 m.kr.

Að auki verður farið í ýmis minni verkefni til að bæta rekstraröryggi og þjónustu, efla vatnsvernd og tryggja auðlindir til framtíðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert