78 þúsund fá barnabótaauka

Sam­tals voru 313 þúsund á skattgrunnskrá 2019 og fjölgar um …
Sam­tals voru 313 þúsund á skattgrunnskrá 2019 og fjölgar um 1,8% milli ára. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Greiðslur ríkissjóðs vegna tekjutengdra barnabóta nema 12,1 milljarði króna og hækka um 3,5% á milli ára. Tæplega 48 þúsund einstaklingar fá barnabætur sem er 2,2% fjölgun milli ára. Bótafjárhæðir voru hækkaðar um 5% milli ára og tekjuskerðingarmörk um rúmlega 24% milli ára. 

Þetta er meðal þess sem Skatturinn greinir frá í dag en ríkisskattstjóri hefur nú lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga og tekur álagningin mið af tekjum einstaklinga árið 2019 og eignastöðu þeirra 31. desember 2019.

Sam­tals voru 313 þúsund á skattgrunnskrá 2019 og fjölgar um 1,8% milli ára. Þetta er minni fjölgun en verið hefur síðustu ár sem endurspeglar þróun vinnumarkaðarins á síðasta ári. 

Til viðbótar tekjutengdum barnabótum er greiddur sérstakur barnabótaauki sem nemur 3 milljörðum króna sem rúmlega 78 þúsund einstaklingar fá. Barnabótaaukinn er útfærður þannig að þeir framfærendur sem fá greiddar tekjutengdar barnabætur samkvæmt niðurstöðu álagningar fá til viðbótar greiddar 42.000 kr. á hvert barn og þeir framfærendur sem ekki fá greiddar neinar tekjutengdar barnabætur vegna skerðingarákvæða, miðað við tekjur viðkomandi, fá greiddan sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 30.000 kr. á hvert barn. Um er að ræða aðgerð vegna heimsfaraldurs Covid-19.

Tekjur af arði hækka

Af 313 þúsund framteljendum fá 238 þúsund einstaklingar álagðan almennan tekjuskatt og 302 þúsund einstaklingar álagt útsvar. Tekjulausir framteljendur eru um 11 þúsund talsins, en þeir kunna að vera með fjármagnstekjur.

Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 24,2 ma.kr. og er það hækkun um 2,7% milli ára. Um 40 þúsund einstaklingar greiða slíkan skatt og meðalskattur á einstakling hækkar úr 595 þús.kr. á álagningarárinu 2019 í 609 þús.kr. í ár sem er hækkun um 2,3%.

Fjármagnstekjur skiptast í tekjur af arði, vöxtum, leigu og söluhagnaði. Tekjur einstaklinga af arði er stærsti einstaki liður fjármagnstekna, eða 38%. Tekjurnar nema 46,1 ma.kr. sem er 5,3% aukning frá fyrra ári. Fjöldi þeirra sem töldu fram arð vegna ársins 2019 var rúmlega 13 þúsund og fækkaði þeim milli ára.

186 þúsund eiga inni hjá Skattinum 

Inneign framteljenda að lokinni álagningu er alls 26,8 ma.kr. en 3,7 ma.kr. af henni verður ráðstafað upp í kröfur vegna vangoldinna gjalda. Eftir stendur því 23,1 ma.kr. sem tæplega 186 þúsund manns eiga í inneign hjá ríkissjóði nú um mánaðamótin. 

Heildarfjárhæðin sem greidd er út við álagninguna hækkar úr 18,6 ma.kr. í 23,1 ma.kr. milli ára. Hækkunin skýrist fyrst og fremst af barnabótaaukanum sem var ekki til staðar í fyrra, en einnig er talsverð hækkun á ofgreiddri staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars sem verður nú endurgreidd. Þá mun ríkissjóður auk þessa greiða 3,3 ma.kr. í barnabætur 1. október.

Álagningarskrá einstaklinga er ekki lögð fram á árinu 2020.

mbl.is