Lagði hald á 130 kannabisplöntur í Árbænum

mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í heimahúsi í Árbæ í vikunni. Lagt var hald á tæplega 130 kannabisplöntur á ýmsum stigum ræktunar.

Við húsleit tók lögreglan enn fremur í sína vörslu fjármuni, sem grunur leikur á að séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Tveir húsráðendur voru handteknir í þágu rannsóknarinnar og játaði annar þeirra aðild að málinu, að því er segir í tilkynningu.

Lagt var hald á álíka margar kannabisplöntur í Hafnarfirði fyrr í mánuðinum.

Lögreglan minnir á upplýsingasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um. Ábendingum um brot má jafnframt koma á framfæri í einkaskilaboðum á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is