Landspítali á óvissustigi í sumar

Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans segir að sumarið verði áskorun fyrir …
Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans segir að sumarið verði áskorun fyrir spítalann, en hann telur að Landspítalinn hafi staðist álagið sem fylgdi kórónuveirufaraldrinum. Ljósmynd/Lögreglan

Landspítalinn fór nýverið af hættustigi og yfir á óvissustig og mun starfa á því fram eftir sumri. Þetta kemur fram í vikulegum forstjórapistli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans. 

Páll segir að kaflaskil hafi orðið í upphafi vikunnar í baráttunni við COVID-19 þegar neyðarstigi almannavarna var aflétt. Landspítali fór aldrei á neyðarstig en starfaði samkvæmt hættustigi viðbragðsáætlunar spítalans til 18. maí.  Nú tekur óvissustig við. 

Landspítalinn stóðst álagsprófið í glímunni við heimsfaraldurinn að mati Páls. „Starfsfólk spítalans sýndi sínar bestu hliðar og leiddi spítalann í gegnum kófið, spítalinn virkaði í raun eins og smurð vél þar sem hver hlekkur sýndi styrk sinn. Takk enn og aftur, öll!“ skrifar forstjórinn. 

Hann segir að nú muni starfsfólk aðeins kasta mæðinni en ljóst er að sumarið í ár verði áskorun eins og oft. „En þó er ánægjulegt að segja frá því að vel hefur gengið að manna og verða sumarlokanir í algjöru lágmarki.“

Í síðustu viku skilaði spítalinn áhættumati sínu, að beiðni heilbrigðisráðuneytisins, vegna fyrirhugaðrar opnunar landamæra landsins sem stjórnvöld áætla 15. júní. „Í stuttu máli má segja að niðurstaðan sé sú að komi til innlagna sjúklinga með Covid-19 eða vegna gruns um sjúkdóminn megi búast við að það verði umtalsverð áskorun fyrir spítalann,“ skrifar Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert