Mikill straumur bíla norður í land

Um landið bruna bifreiða. Drottningarbraut á Akureyri.
Um landið bruna bifreiða. Drottningarbraut á Akureyri. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Það er „mikill straumur“ af bílum á leið norður í land nú síðdegis, að sögn Ragnhildar Haraldsdóttur lögreglumanns hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra.

„Þetta gengur vel fyrir sig en umferðin er farin að þyngjast og greinilegt að Íslendingar eru á faraldsfæti,“ segir hún.

Straumur bíla norður í land verður best skýrður með hliðsjón af veðurspá. Í Ásbyrgi er spáð 21 stigi í dag og víða um Norður- og Austurland er bjart veður og 14-20 stig. Þar er talað um að fyrstu 20 stig ársins mælist í dag.

Á sama tíma er súld og rigning sunnan- og vestanlands, og dálitlar skúrir á morgun, á meðan enn verður bjart og þurrt á Norður- og Vesturlandi. Samkvæmt þessu er ýmislegt vitlausara en að halda norður í land í von um gott veður.

Um leið er þriggja daga helgi og frídagur á annan í hvítasunnu á mánudeginum. Að sögn Ragnhildar er líka útileguhugur í mannskapnum, og hjól og tjaldvagnar sjáanlegri í eftirdragi en síðustu helgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert