Vilja óháða úttekt á vinnubrögðum Neyðarlínunnar

„Það er öllum í hag að komast til botns í …
„Það er öllum í hag að komast til botns í þessu, bæði starfsfólki Neyðarlínunnar sem þá yrðu hreinsuð af hugmyndum [um óvönduð vinnubrögð] og líka almenningi sem getur þá unað vel við þjónustuna sem er tryggð að sé alltaf af góðum gæðum,“ segir Dóra Björt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar samþykkti í gær ályktun á fundi sínum þar sem stjórn Neyðarlínunnar er hvött til þess að láta óháða úttekt á vinnubrögðum og verkferlum Neyðarlínunnar fara fram. Þetta segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, sem hefur rætt málefni Neyðarlínunnar opinberlega síðustu daga. 

„Ég tel það vera mitt hlutverk sem stjórnmálamanneskju að vera málsvari þeirra sem telja sig hafa upplifað óréttlæti. Það ýtir ekki undir tiltrú eða traust ef hlutir eru slegnir út af borðinu að óskoðuðu máli og það er þetta sem þetta snýst um,“ segir Dóra Björt í samtali við mbl.is.

Úttektin á, samkvæmt ályktuninni, að taka  mið af gagnrýni sem fram hefur komið í opinberri umræðu um verklag starfsmanna Neyðarlínunnar. Atvikið sem um ræðir snýst um beiðni um aðstoð vegna ölv­un­ar­ástands ungra stúlkna en Fréttablaðið greindi frá því að stúlkurnar hefðu fundist meðvitundarlausar og tveir vinir þeirra reyndu ítrekað að fá aðstoð frá Neyðarlínunni sem gekk ekki vel, samkvæmt frétt Fréttablaðsins. 

„Ég stend með Neyðarlínunni

Í kjölfar fréttaflutningsins sagði Dóra að það væri alvarlegt ef viðhorf Neyðarlínunnar einkenndist af fordómum. Neyðarlínan sendi í gær frá sér tilkynningu þar sem fram kom að málið hefði þegar verið komið til lögreglu þegar hringt var í Neyðarlínuna og eftir að Neyðarlínunni var tilkynnt um að önnur stúlkan andaði ekki voru kvaddir til tveir sjúkrabílar sem fóru í forgangsakstri á staðinn.

Þá var Dóra Björt beðin um afsökunarbeiðni í tilkynningunni og þar sagt að hún hefði sett fram grófar en tilhæfulausar ásakanir á hendur starfsfólki Neyðarlínunnar. Það segir Dóra af og frá. 

„Ég stend með Neyðarlínunni en þess vegna þarf að tryggja að þjónustan sé góð og stofnunin njóti trausts og það er gert með góðri vinnu og auðmýkt og mál séu skoðuð. Því miður þá hafa viðbrögð forsvarsaðila Neyðarlínunnar ekki verið með þeim hætti sem ég hefði óskað. Mér finnst þau ekki hafa einkennst af þeirri auðmýkt sem ég hefði haldið að væri gagnlegt að sýna í þessu máli,“ segir Dóra.

Segir úttekt öllum í hag

Úttektin sem mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar kallar eftir getur að mati Dóru bæði hjálpað Neyðarlínunni og almenningi. 

„Það er öllum í hag að komast til botns í þessu, bæði starfsfólki Neyðarlínunnar sem þá yrðu hreinsuð af hugmyndum [um óvönduð vinnubrögð] og líka almenningi sem getur þá unað vel við þjónustuna sem er tryggð að sé alltaf af góðum gæðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert