Aukin jarðskjálftavirkni getur fylgt landrisi

Kvikusöfnun gæti verið hafin á nýjan leik við fjallið Þorbjörn, …
Kvikusöfnun gæti verið hafin á nýjan leik við fjallið Þorbjörn, rétt utan Grindavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gervitunglamælingar Veðurstofu Íslands benda til þess að landris geti verið hafið á nýjan leik við fjallið Þorbjörn í grennd við Grindavík. Þetta segir Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, í samtali við mbl.is. Með gervitunglamælingunum fá vísindamenn nákvæma mynd af stöðu yfirborðsins en með samanburði við eldri myndir má sjá hvort land er að rísa.

Hulda segir að þörf sé á fleiri mælingum áður en hægt er að skera úr um hvort landris sé hafið að nýju. „Við þurfum að bíða eftir næstu [gervitungla]mælingu og líka að skoða GPS-gögnin. Það þarf ákveðinn tími að líða til þess að við getum séð hvort þetta er eitthvert trend,“ segir Hulda.

Sé landris hafið að nýju bendir það til þess að kvikusöfnun undir Þorbirni sé ekki lokið, sem gæti leitt til aukinnar skjálftavirkni á nýjan leik. Mikið hefur verið um skjálfta á svæðinu síðustu mánuði, en á undanförnum vikum hefur dregið úr virkninni og ekki hefur mælst skjálfti yfir 3 að stærð síðan 11. apríl. 

Óvissustigi almannavarna var lýst yfir 26. janúar vegna kvikusöfnunarinnar, en það hefur ekki verið fellt úr gildi. Á sama tíma var litakóði alþjóðaflugs fyr­ir eld­fjöll á Reykja­nesskaga færður yfir á gult, en sú viðvörun er ekki lengur í gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert