Hitinn rúmlega 19 stig fyrir norðan

Það mætti segja að það hefði verið bongó á Raufarhöfn …
Það mætti segja að það hefði verið bongó á Raufarhöfn í dag. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Veðrið hefur verið afar gott á mestöllu landinu það sem af er degi og sólin hefur látið sjá sig víðast hvar. Úrkoma hefur verið lítil sem engin en aðeins þó á Vestfjörðum. Mesti hitinn hefur mælst á Norður- og Norðausturlandi.

Hitinn náði 19,2 stigum bæði á Húsavík og á Raufarhöfn en það er mesti hiti sem mælst hefur í dag. Ásbyrgi var ekki langt undan þar sem hiti mældist allt að 18,9 stig. 

Spáð er sunnanátt 5-10 m/s og skúrum, en bjart með köflum norðaustanlands og hlýtt í veðri.

Spáð er skúrum á morgun og suðvestan 8-13 m/s en rigningu um tíma á Suðausturlandi og síðar einnig fyrir norðan. Það mun þó létta til á austanverðu landinu um kvöldið. Hiti verður á bilinu 7 til 16 stig og hlýjast á Austurlandi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag (annan í hvítasunnu):
Suðvestan 3-10 m/s og dálitlar skúrir, lítils háttar rigning syðst, en lengst af bjartviðri A-lands. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast á Austurlandi.

Á þriðjudag:
Vestlæg átt, 5-10 m/s, skýjað og þurrt að kalla á V-verðu landinu, en yfirleitt léttskýjað eystra. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast á SA-landi.

Á miðvikudag:
Vestankaldi og lítils háttar væta V-lands, en annars skýjað með köflum, þurrt og milt veður.


Á fimmtudag og föstudag:
Útlit fyrir svala norðanátt, dálítil væta NA-lands, en annars bjart með köflum.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert