„Líta ekki á þetta sem endapunkt“

„Flestir líta ekki á þetta sem einhvern endapunkt,“ segir Guðbjörg Kristmannsdóttir, formaður eins stærsta verkalýðsfélags á Suðurnesjum þar sem höggið vegna kórónukreppunnar hefur verið hvað verst. Fólk haldi ró sinni í þeirri von að ástandið muni breytast til hins betra.

Fyrirtækin hagi seglum sínum einnig þannig og standi flest vel að hópuppsögnunum. Enda sé víðast hvar vilji til þess að fá fólk aftur til vinnu þegar fer að rofa til í efnahagslífinu.  

Guðbjörg hefur verið formaður VSFK, eða Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur, í rúmt ár og er að takast á við einn mesta mótbyr sem íslenskt atvinnulíf hefur lent í, eftir skamman tíma í formannssætinu. Hún segir fólk eðlilega leita mikið til félagsins á þessum tímum en tekur fram að það sé rólegt, sem sé oft ekki raunin þegar fólk missi vinnuna.  

mbl.is