Meirihluti til í aðgerðir

Mikið álag hefur verið á hjúkrunarfræðingum.
Mikið álag hefur verið á hjúkrunarfræðingum.

Samninganefndir Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins tóku stöðuna í samningaviðræðum á fundi hjá ríkissáttasemjara eftir hádegið í gær og lauk fundi þeirra um sjöleytið í gærkvöldi.

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari segir fundinn hafa gengið vel og dagurinn hafi heilt yfir verið góður, en fundinum átti upphaflega að ljúka kl. 15. „Þetta var mjög góður dagur og mjög virkt samtal og við förum núna inn í þessa hvítasunnuhelgi og hittumst aftur á þriðjudaginn,“ sagði Aðalsteinn í samtali við mbl.is.

Næsti fundur í kjaradeilunni hefst klukkan 14 á þriðjudaginn. Báðar samninganefndir hafa ákveðið að tjá sig ekki um gang viðræðnanna við fjölmiðla, en Gunnar Helgason, formaður samninganefndar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sagði fyrir fundinn að unnið hefði verið að ýmsum verkefnum í hópum og ætlunin hefði verið að taka stöðuna á fundinum í gær.

Afgerandi skilaboð

„Það eru býsna afgerandi skilaboð sem hjúkrunarfræðingar beina til okkar. Annars vegar krafa um að grunnlaun hækki meira og hins vegar vilji til að fara í aðgerðir til að knýja á um að orðið verði við kröfunni,“ segir Gunnar um niðurstöður viðhorfskönnunar sem félagið lét gera meðal félagsmanna fyrr í mánuðinum.

Félagsmenn voru meðal annars spurðir um viðhorf sitt, ef félagið teldi að boða þurfi til aðgerða til að knýja fram kjarabætur. Tæplega helmingur svarenda, 49,6%, kvaðst tilbúinn í almennt verkfall, tæpur þriðjungur, 32,5%, sagðist reiðubúinn í yfirvinnubann og rétt rúmur þriðjungur, 33,5, sagðist ekki vilja fara í verkfall eða yfirvinnubann. Félagsmenn gátu merkt við tvo kosti um aðgerðir en ljóst er að mikill meirihluti þeirra sem svöruðu er tilbúinn að fara í vinnustöðvun af einhverju tagi, ef það er talið þurfa.

„Niðurstöður þessarar könnunar segja til um hver staðan er, við hlustum á það og höfum til hliðsjónar í okkar viðræðum,“ segir Gunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert