Mikill sigur fyrir mig að ljúka háskólanámi

Díana Hrund Gunnarsdóttir stóð sig vel í náminu.
Díana Hrund Gunnarsdóttir stóð sig vel í náminu. Ljósmynd/Aðsend

„Ég tel að skólinn og reynslan af því að búa hér úti nýtist mér vel í lífinu. Ég lærði mikið um mig sjálfa og lærði að læra. Ég er með athyglisbrest og það hefur háð mér við nám alla tíð, ég hafði aldrei trú á mér. Það að ljúka háskólanámi er mikill sigur, út af fyrir sig,“ segir Díana Hrund Gunnarsdóttir sem lauk fyrr í mánuðinum námi í afbrotafræði og sálfræði við Dixie State University í St. George í Utah-ríki í Bandaríkjunum.

Lauk hún námi með góðum einkunnum. Meðal annars fékk hún 9,8 fyrir BS-verkefni sitt og var ritgerðin tilnefnd til útgáfu af Utah Valley University. Segir hún ekki víst að ritgerðin verði birt í ritinu en það sé allavega heiður að fá tilnefningu. Hún fékk einnig ýmsar viðurkenningar fyrir námsárangur.

„Ég er ánægð. Þetta er framar mínum björtustu vonum og athyglisvert í ljósi þess að mér hafði ekki gengið vel í námi áður. Það sýnir að ef hugarfarið er rétt getur maður allt sem maður ætlar sér.“

Skemmtilegt að læra

Vegna heimsfaraldursins var útskriftinni sem vera átti í byrjun maí frestað fram í desember. „Ég beið spennt eftir deginum og það er svekkjandi að fá ekki að fagna þessu,“ segir hún.

Díana er úr Garðabæ og flutti fyrir nokkrum árum til Kaliforníu. „Frá því ég var lítil hefur það verið draumur hjá mér að flytja til Bandaríkjanna og ganga í háskóla þar. Ég var orðin 24 ára þegar ég lét loksins verða af því. Ég var eitt og hálft ár í Kaliforníu en okkur langaði að vera á rólegri og fjölskylduvænni stað og fundum þessa borg. Hér tók ég seinni tvö árin í þverfaglegu námi í afbrotafræði og sálfræði.“

Hún segir að hún og maður hennar séu að íhuga næstu skref. Vel komi til greina að fara til annars lands og fara í meistaranám í afbrotafræði eða jafnvel venda kvæði sínu í kross og læra hjúkrunarfræði. „Það er ótrúlega skemmtilegt að læra,“ segir Díana.

Viðtalið birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. maí. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »