Skjálfti af stærð 3,5 í Bárðarbungu

Græna stjarnan á kortinu sýnir hvar á jöklinum skjálftinn mældist.
Græna stjarnan á kortinu sýnir hvar á jöklinum skjálftinn mældist. Kort/Veðurstofa Íslands

Skjálfti af stærð 3,5 varð kl. 01:20 í nótt í norðanverðri Bárðarbunguöskjunni. Engir eftirskjálftar hafa mælst í kjölfarið og engin merki sjást um gosóróa, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands. 

Þá kemur fram að heldur hafi dregið úr skjálftavirkni á Reykjanesskaga síðustu vikur. Rúmlega 120 jarðskjálftar mældust þar í síðustu viku (20.-27. maí), sem er nokkuð minni virkni en í vikunni á undan þegar þeir voru um 200. Stærsti skjálfti þar í síðustu viku var 2,1 að stærð vestur af Reykjanestá.

Eins og fram hefur komið eru vísbendingar um að landris sé hafið að nýju við Þorbjörn, þótt hægt sé. Meiri gögn þarf til að fullyrða frekar um núverandi ferli og þær hættur sem því fylgja, að því er veðurstofan greinir frá. 

Tekið er fram, að óvissustig vegna landriss sé enn í gildi hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Uppfært 11:00
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni virðist um stakan skjálfta að ræða. Engir eftirskjálftar hafa fylgt og enginn gosórói á svæðinu.

mbl.is