Unnið að fagháskólanámi í leikskólafræðum á Suðurnesjum

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í Háskóla Íslands í gær.
Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í Háskóla Íslands í gær. Ljósmynd/Aðsend

Háskóli Íslands, Keilir og sveitarfélög á Suðurnesjum hafa undirritað viljayfirlýsingu um að skipuleggja í sameiningu fagháskólanám í leikskólafræðum fyrir leiðbeinendur sem starfa á leikskólum á Suðurnesjum. Menntavísindasvið mun halda utan um námið af hálfu Háskóla Íslands.

Markmið verkefnisins er í senn að efla menntun innan leikskóla á svæðinu og fjölga möguleikum starfsfólks til starfsþróunar en jafnframt að sameina styrkleika formlegrar menntunar og þeirrar reynslu sem starfsfólk leikskóla býr yfir, að því er fram kemur í tilkynningu. 

Um er að ræða 60 eininga starfstengt nám á háskólastigi sem skilgreint er sem nám með vinnu og er áætlað að það taki tvö ár. Námið er þannig byggt upp að allar þreyttar einingar nýtast þátttakendum til áframhaldandi náms til diplómagráðu eða B.Ed.-gráðu. Námið er hugsað fyrir þau sem hafa stúdentspróf eða uppfylla skilyrði um undanþágu til háskólanáms.

Nánar hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert