11 í fangaklefa eftir nóttina

Lögreglumenn og sjúkralið að störfum. Myndin er úr safni.
Lögreglumenn og sjúkralið að störfum. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls var 101 mál skráð í dagbók lögreglu frá kl. 17 í gær til kl. 05 í morgun. Ellefu einstaklingar voru vistaðir í fangageymslu lögreglu. Þar á meðal maður sem var handtekinn grunaður um líkamsárás og eignaspjöll við bar í Bústaða- og Háaleitishverfi á sjötta tímanum í gær.

Málið var tilkynnt til lögreglu kl. 17:24. Maðurinn var vistaður í fangageymslu á meðan málið var til rannsóknar. Sá sem varð fyrir árásinni hlaut minni háttar áverka, að því er segir í dagbók lögreglu. 

Rétt fyrir klukkan 18 í gærkvöldi var tilkynnt um slys í sundlaug í borginni. Kona hafði meiðst á höfði í rennibraut. Hún var flutt með sjúkrabifreið til aðhlynningar á bráðamóttöku Landspítalans. Ekki er tilgreint nánar um áverka.

Rétt fyrir klukkan 22 í gærkvöldi var tilkynnt um slys á veitingahúsi í miðborg Reykjavíkur. Kona datt í stiga og er talin hafa misst meðvitund. Hún var illa áttuð og var hún flutt með sjúkrabifreið á bráðadeild til aðhlynningar.

Rúmlega ellefu í gærkvöldi var maður handtekinn grunaður um húsbrot og eignaspjöll á  athafnasvæði Eimskips. Maðurinn var látinn laus eftir skýrslutöku.

Klukkan 23:47 var tilkynnt um slys á Hlíðarenda í Reykjavík. Maður datt þar á andlitið niður steyptar tröppur og fékk mikla áverka. Talið að maðurinn hafi rotast. Hann var fluttur með sjúkrabifreið til aðhlynningar á slysadeild.

Um kl. 00:30 í nótt var tilkynnt um rán í Bústaða- og Háaleitishverfi. Þar réðust tveir menn á einn og rændu frá honum tösku og heyrnartólum.  Málið er í rannsókn.

Á þriðja tímanum í nótt var tilkynnt um umferðarslys í miðborginni. Þar ók maður á rafskútu á bifreið og féll við höggið. Talið er að tönn hafi brotnað hjá manninum, sem er grunaður um ölvun við akstur. 

Kl. 02:42 var kona handtekin í Laugardalshverfinu. Hún er grunuð um vörslu og framleiðslu fíkniefna. Konan var vistuð fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Þá hafði lögreglan m.a. afskipti af ökumönnum sem eru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert