Bakverðir atvinnulífsins

Á gamalli og traustri brú. Guðmundur Hauksson og Þráinn Þorvaldsson …
Á gamalli og traustri brú. Guðmundur Hauksson og Þráinn Þorvaldsson tengja bil reynslu á milli kynslóða. Ljósmynd/Sif Þráinsdóttir

Reynslubanki Íslands (rbi.is) var formlega stofnaður sumardaginn fyrsta síðastliðinn, „á degi vona um gróanda og betri tíð“, segir Þráinn Þorvaldsson, en um er að ræða tilraunaverkefni hans og Guðmundar G. Haukssonar til stuðnings íslensku atvinnulífi með áherslu á aðstoð við fyrirtæki með fáa starfsmenn.

Þráinn segist oft hafa velt fyrir sér hvernig hægt væri að nýta reynslu fólks sem hætt væri að vinna en vildi leggja sitt af mörkum án skuldbindinga. „Þegar ég byrjaði að vinna sem viðskipta- og hagfræðingur gerði ég ýmis mistök í ákvarðanatöku, sem ég gerði mér grein fyrir seinna meir, þegar ég horfði til baka,“ segir hann um stofnun Reynslubankans. „Hugmyndin er að fólk geti boðið fram þjónustu sína og forsvarsmenn fyrirtækja geti óskað eftir því að fá reyndan leiðbeinanda í heimsókn. Á vissan hátt er stöðugt verið að finna upp hjólið og þó að margt gagnlegt sé í kennslubókum um stjórnun og fleira jafnast ekkert á við eigin reynslu.“

Fyrir um fimm árum skrifaði Þráinn grein um þessa hugmynd sína en hún varð ekki að veruleika fyrr en eftir að hann kynntist Guðmundi, þar sem þeir voru í sjálfboðaliðastarfi hjá Krabbameinsfélaginu í vetur. Ásamt fleirum vinna þeir að uppbyggingu samtaka þeirra sem hafa greinst með blöðruhálskirtilskrabbamein.

Hugsjónamenn

Félagarnir eiga það sameiginlegt að vera miklir hugsjónamenn, að sögn Þráins, sem kom víða við á löngum starfsferli. Eftir að hafa lokið mastersprófi í markaðs- og sölumálum 1974 vann hann meðal annars sem framkvæmdastjóri hjá ullarvöruútflutningsfyrirtækinu Hildu hf. á sviði sölu- og markaðsmála, var fyrsti framkvæmdastjóri Útflutningsráðs, sinnti ráðgjafarstörfum og stofnaði ásamt Sigmundi Guðbjarnasyni, mági sínum, og fleirum SagaMedica. Guðmundur er frumkvöðla- og viðskiptamarkþjálfi með menntun og þjálfun á því sviði. Hann er umboðsmaður fyrir Gordon Training International og með víðtæka starfsreynslu á sviði sölu- og markaðsmála. Guðmundur hefur verið virkur í félagsstarfi og var einn af stofnendum og fyrsti formaður íþróttafélagsins Fjölnis í Grafarvogi.

Þráinn leggur áherslu á að ekki sé verið að fara inn á svið ráðgjafa heldur leiðsögn í trúnaði án endurgjalds. Viðbrögðin sýni að mörgum finnist gott að geta rætt vandamál við einhvern utanaðkomandi, sem geti lagt gott til málanna. Kórónuveiran hafi skapað mikla erfiðleika en ný tækifæri verði til. „Þetta er leiðbeinandi starf án skuldbindinga,“ áréttar hann.

Verkefnið er komið í gang, tilvonandi leiðbeinendur hafa haft samband, talsmenn fyrirtækja hafa óskað eftir liðsinni og reynsluviðtöl farið fram. „Framtíðarsýnin er að til verði öflug bakvarðarsveit reynslumikilla fyrrverandi stjórnenda í fyrirtækjum,“ segir Þráinn. „Þeir verði reiðubúnir til þess að setjast niður í sjálfboðavinnu í leiðbeinandi hlutverki með stjórnendum lítilla fyrirtækja sem eru í endurskipulagningu eða frumkvöðlastarfi.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. maí. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman