Langstærsti vinnustaðurinn brunninn

Bæjarstjórinn á Akureyri mun ræða við forsvarsmenn fyrirtækisins Hrísey Seafood …
Bæjarstjórinn á Akureyri mun ræða við forsvarsmenn fyrirtækisins Hrísey Seafood um næstu skref í vikunni. Skoða á hvernig hjálpa megi fyrirtækinu að koma starfsemi aftur í gang, ef sú stefna verður tekin. mbl.is/Ellert

Frystihúsið sem brann í Hrísey á fimmtudaginn var hluti af langstærsta vinnustað í eyjunni, Hrísey Seafood. Húsið er gjörónýtt en Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri og þar með yfir Hrísey, kveðst munu funda við forsvarsmenn fyrirtækisins í vikunni.

Þar verður farið yfir hvort hægt sé að aðstoða fyrirtækið með einhverjum hætti við að koma starfseminni aftur í gang. Enn er óljóst hvaða stefna verði tekin, segir Ásthildur, enda stutt síðan bruninn varð. Ljóst sé þó að starfsemin skipti miklu máli í eyjunni.

„Þetta er hrikalegt áfall fyrir eigendur fyrirtækisins en það er svo stuttur tími liðinn að fólk er ekki endilega búið að átta sig á því hvernig þetta verður,“ segir Ásthildur við mbl.is.

Hvort stofnað verði til starfa á vegum bæjarins í eynni til að mæta hugsanlegu atvinnuleysi sem myndast, segir Ásthildur ekkert hafa verið ákveðið. Fyrst sé að athuga hvernig málum vindur fram hjá útgerðinni og út frá þeirri niðurstöðu verður síðan skoðað alvarlega hvað þurfi að gera til að aðstoða atvinnulíf í eyjunni.

Í Morgunblaðinu á föstudaginn lýsti Ásthildur yfir áhuga á því hafa ferðir með ferjunni til Hríseyjar ókeypis í sumar til að örva umferð um svæðið. Þau áform segir hún að séu í ferli í bæjarkerfinu og að fólk sé mjög jákvætt gagnvart þeim. „Það er mikill vilji til þess að bregðast við með jákvæðum hætti til að aðstoða samfélagið í Hrísey.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert