Ráðast í sýnatöku í sumar

Síðasta vor var ráðist í viðgerðir vegna mygluskemmda í Fossvogsskóla …
Síðasta vor var ráðist í viðgerðir vegna mygluskemmda í Fossvogsskóla en enn finna nemendur og starfsfólk fyrir einkennum í ákveðnum hlutum hússins. Í sumar verða tekin sýni í skólanum. mbl.is/Eggert

Ákveðið hefur verið að Verkís verkfræðistofa verði fengin til þess að taka sýni í Fossvogsskóla í sumar þar sem talið hefur verið að húsnæði liggi undir rakaskemmdum. Nemendur og starfsfólk í hluta hússins sýna áfram einkenni sem benda til þess, þó að þegar hafi verið ráðist í endurbætur á húsinu. 

„Þetta eru góðar fréttir,“ segir Karl Óskar Þráinsson, formaður Foreldrafélags Fossvogsskóla við mbl.is. Áhyggjur hans, og annarra foreldra, beindust að því að óskum þeirra um að ráðist yrði í sýnatökuna var ekki svarað. Eftir fund þann 28. maí með fulltrúum frá Reykjavíkurborg er þó orðið ljóst að ráðist verður í sýnatökuna í sumar.

Niðurstaða um það hvort þurfi að ráðast í endurbætur á húsnæðinu fæst þá bráðlega og lögð er áhersla á að verði ráðist í endurbætur, verði framkvæmdunum lokið fyrir skólabyrjun í ágúst.

Það á ekki að vera í rakaskemmdu húsnæði

Ástandið í vissum hlutum skólabyggingarinnar hefur að sögn Karls verið þannig að sumum nemendum og starfsfólki hefur ekki verið vært þar, slík hafi einkennin verið. Einkennin eru yfirleitt tengd öndunarfærum þegar rakaskemmdir eru annars vegar, og fólk veikist mismikið. Þrátt fyrir umfangsmiklar endurbætur síðasta vor, eru einkennin viðvarandi hjá sumum.

„Við vitum síðan ekki langtímaáhrifin en það eina sem við vitum og það sem allir eru sammála um, er að það á ekki að vera í rakaskemmdu húsnæði. Það er hættulegt og markmiðið er að tryggja að enginn þurfi að gera það,“ segir Karl.

Á nefndum fundi var einnig ákveðið að fulltrúar Reykjavíkurborg funduðu með skólaráði Fossvogsskóla á um það bil hálfs mánaðar fresti á meðan framkvæmdir stæðu yfir eða eftir því sem aðstæður krefjast að mati málsaðila. Samskiptin ættu því að batna með sumrinu, en kvartað hafði verið undan því að það stæði á svörum frá borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert