Sextán ára grunuð um vörslu fíkniefna

Ljósmynd/Lögreglan

Fjöldi mála var skráður í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Flest málin eða ellefu talsins voru vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða hvors tveggja.

Rétt eftir klukkan níu í gærkvöldi ætluðu lögreglumenn að hafa afskipti af ökumanni í hverfi 108 en ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og reyndi að komast undan. Skömmu síðar missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni og ók framan á tvær bifreiðar.

Hann var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, að aka án ökuréttinda, fyrir hraðakstur og fyrir að vera valdur að slysi. Var hann vistaður í fangageymslu lögreglu.

Í sama hverfi var maður handtekinn um miðjan gærdag grunaður um líkamsárás. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Málið tilkynnt til barnaverndar

Rétt fyrir miðnætti þurfti lögregla að hafa afskipti af 16 ára stúlku sem var farþegi í bifreið þar sem ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Stúlkan er grunuð um vörslu fíkniefna og var málið unnið með aðkomu forráðamanna og tilkynningu til barnaverndar.

Ökumaður bifreiðar á Krýsuvíkurvegi var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna, ítrekaðan akstur án ökuréttinda, að fara ekki eftir fyrirmælum lögreglu og of hraðan akstur.

Tveir menn voru handteknir í Kópavogi og vistaðir í fangageymslu í tengslum við líkamsárás.

Einn ökumaður var stöðvaður í Kópavogi grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Tveir ökumenn voru stöðvaðir í Breiðholti vegna gruns um að aka undir áhrifum áfengis, vímuefna eða hvors tveggja og einn fyrir að aka án réttinda.

Þrír ökumenn voru stöðvaðir í Árbæ vegna gruns um ölvun við akstur, einn þeirra var einnig grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Þá var ökumaður í Grafarholti stöðvaður vegna gruns um að vera undir áhrifum fíkniefna.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is