180 þúsund farþegar í stað 1,1 milljónar

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Við mat á mögulegri fjölgun ferðamanna og vexti ferðaþjónustunnar í kjölfar kórónuveirunnar skiptir miklu hvenær hægt verður að nýta Keflavíkurflugvöll að nýju sem flutningsmiðju yfir Atlantshafið.

Hlutdeild skiptifarþega í umferð um Keflavíkurflugvöll var tæp 30% árið 2019 eftir fjórðungssamdrátt árið 2018 þegar hlutdeild þeirra slagaði í 40%. Nýting flugkerfisins með þessum hætti getur haft grundvallaráhrif á það hvort fjárhagslega arðbært sé að fljúga á tiltekna áfangastaði. Án þessarar starfsemi er líklegt að fjöldi áfangastaða sem flogið er til frá Keflavíkurflugvelli gæti dregist verulega saman frá því sem við höfum vanist frá árinu 2016.

Þetta kemur fram í greinargerð um losun ferðatakmarkana sem var unnin að beiðni forsætisráðherra og kynnt á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Leiguflug með Íslendinga arðbærust

Vegna þess að flugframboð er einn helsti áhrifaþáttur í þróun farþegaflutninga milli landa mun það skipta íslenska ferðaþjónustu höfuðmáli að opnað verði fyrir áfangastaði í Evrópu og Norður-Ameríku með eins jöfnum hætti og mögulegt er að teknu tilliti til sjónarmiða sóttvarna.

Þangað til að því kemur má ætla að ferðaþjónustan leiki viðaminna hlutverk í efnahagsbatanum en verið hefur undanfarin ár, jafnvel þótt opnað verði á ferðalög milli einstakra ríkja. Fram að þeim tíma er hætt við að arðbærustu flugin verði skipulögð leiguflug með íslenska ferðamenn úr landi, segir í greinargerðinni.

Flugvélar Icelandair.
Flugvélar Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðeins 5% skili sér til landsins

Ef gert er ráð fyrir að ferðavilji fólks sé lítill í þeim vestrænu ríkjum sem hafa orðið illa úti í faraldrinum, þ.e. í Bandaríkjunum, Bretlandi, Ítalíu og á Spáni, og aðeins 5% fólks frá þeim ríkjum skili sér til landsins á síðari hluta ársins en einn af hverjum fjórum ríkisborgurum annarra ríkja, gæti ferðamönnum fækkað úr 1,1 milljón á seinni hluta árs í fyrra í 180 þúsund í ár.

Fram kemur einnig að langur tími gæti því liðið þar til fjöldi ferðamanna á Íslandi kemst nálægt tveimur milljónum á nýjan leik.

mbl.is