Bruninn í Hrísey líklega íkveikja eða slys

Húsnæði frystihúss Hrísey Seafood er gjörónýtt eftir brunann.
Húsnæði frystihúss Hrísey Seafood er gjörónýtt eftir brunann. mbl.is/Ellert

Samkvæmt fyrstu niðurstöðu rannsóknar tæknideildar lögreglu og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á brunanum í frystihúsinu í Hrísey er nánast útilokað að um rafmagnsbilun hafi verið að ræða. Eldurinn var því líklega af mannavöldum.

Þetta segir Bergur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, í samtali við mbl.is.

Rannsakendur frá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fóru út í Hrísey á föstudag ásamt sérfræðingi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og rannsökuðu vettvang brunans. Kannað var sérstaklega hvort um rafmagnsbilun hafi verið um að ræða.

„Eftir athuganir þeirra á föstudag er rafmagn útilokað og þá standa eftir þessar tvær kenningar. Þá er eldurinn væntanlega af mannavöldum hvort sem það er slys eða ásetningur,“ segir hann og bætir við:

„Miðað við lýsingar manna þá bendir fleira til slyss en eins og er þá eru þetta einungis vinnutilgátur sem við erum að vinna með núna og við bíðum auðvitað lokaniðurstöðu frá tæknideild.“

Ómögulegt að segja hvenær rannsókn ljúki

Ekki er hægt að segja til um hvað rannsókn tæknideildar lögreglu taki langan tíma eða hvenær von er á lokaniðurstöðu enda um erfiða og flókna rannsókn að ræða.

„Þessi mál eru þess eðlis að sönnunargögn, ef bruninn sjálfur skemmir þau ekki, fara oft við slökkvistarf. Þannig að það er oft lítið til að vinna með og erfitt að fá endanlega niðurstöðu í þessi mál,“ útskýrir Bergur.

Ef rannsókn tæknideildar leiðir ekki orsök eldsins í ljós þarf að leita líklegustu skýringar með því að rekja söguna og atburðina á vettvangi klukkstundirnar áður en eldurinn kom upp.

„Eins og í þessu tilfelli þá kemur upp að það var verið að sjóða og þegar það er verið að rafsjóða þá vita menn að það geta hlaupið neistar og þeir kveikja ekkert endilega í strax.“

Bergur segir að þetta sé ein af þeim tilgátum sem rannsakendur eru að vinna með núna en áfram verði skoðað hvort aðrar skýringar séu líklegri.

„Við þurfum að vinna með útilokunaraðferðina núna og bíða eftir endanlegri niðurstöðu frá tæknideild og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun,“ bætir hann við.

mbl.is