Enginn grunur um saknæmt athæfi

mbl.is/Einar Falur

Dánarorsök mannsins sem fannst látinn í Laxá í Aðaldal í fyrrinótt er ókunn á þessari stundu. Ekki er ljóst hvort um drukknun eða veikindi hafi verið að ræða og þarf krufning að leiða það í ljós.

Þetta segir fulltrúi rannsóknardeildar lögreglunnar á Norðurlandi eystra í samtali við mbl.is. Enginn grunur er um að saknæmt athæfi hafi átt sér stað. Maðurinn var einn við veiðar þegar andlátið bar að og því enginn til frásagnar um tildrög þess.

Þegar hann skilaði sér ekki til baka að veiðitíma loknum klukkan tíu á föstudagskvöldi var óskað eftir aðstoð frá nálægum björgunarsveitum.

Síðar voru björgunarsveitir úr Eyjafirði og austan af landi með sérhæfðan búnað fengnar til að aðstoða við leitina. Einnig var óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar sem sendi þyrlu norður.

Laust eftir klukkan þrjú um nóttina fannst maðurinn í ánni skammt frá þeim stað sem síðast var vitað um ferðir hans. Hann lætur eftir sig eiginkonu, þrjú börn og sex barnabörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert