Hækkar mest um 17,8%

Fasteignamat hækkar um 8,2% á Vestfjörðum en lækkar um 0,5% …
Fasteignamat hækkar um 8,2% á Vestfjörðum en lækkar um 0,5% á Suðurnesjum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fasteignamat hækkar mest á milli ára á Vestfjörðum ef litið er til landsvæða, eða um 8,2% samkvæmt nýju fasteignamati Þjóðskrár Íslands fyrir árið 2021.

Mest lækkar fasteignamatið á Suðurnesjum, eða um 0,5%. Heildarmat fasteigna hækkar um 2,1% og verður 9.429 milljarðar króna.

Miðað við undangengin ár er breytingin á fasteignamatinu lítil.

„Það ætti ekki að koma á óvart að þegar dregur úr verðhækkunum á fasteignamarkaði þá eru breytingar á fasteignamati í takt við þá þróun,“ er haft eftir Margréti Hauksdóttir, forstjóra Þjóðskrár Íslands, í tilkynningu.

Á höfuðborgarsvæðinu hækkar matið um 2,2% en um 1,9% á landsbyggðinni.

Fasteignamatið hækkar næstmest á Norðurlandi vestra, eða um 6,5%.

Á Austurlandi hækkar matið um 3,5% og um 2,2% á Suðurlandi. Matið hækkar um 1,9% á Norðurlandi eystra og 0,4% á Vesturlandi.

11,2% hækkun á Ísafirði

Af einstaka bæjarfélögum hækkar heildarfasteignamat mest á Ísafirði, eða um 11,2%, um 8,8% í Akrahreppi og 8,5% í Tálknafjarðarhreppi og á Blönduósi. Mest lækkun er í Skorradalshreppi og sveitarfélaginu Vogum þar sem fasteignamatið lækkar um 3,6%.

Samanlagt mat íbúða á öllu landinu hækkar um 2,3% á milli ára og verður alls 6.511 milljarðar króna, þar af hækkar sérbýli um 2,2% á meðan fjölbýli hækkar um 2,4%. Hækkun á íbúðamati á höfuðborgarsvæðinu er að meðaltali 2,4% en 2,1% á landsbyggðinni.

Lækkar um 5,2% í Vogum

Fasteignamat íbúða hækkar mest í Akrahreppi en þar hækkar íbúðarmatið um 17,8%, á Ísafirði um 15,5% og í sveitarfélaginu Ölfusi um 15,2%.

Mestu lækkanir á íbúðamati eru í sveitarfélaginu Vogum þar sem fasteignamat íbúða lækkar um 5,2%. Í Vopnafjarðarhreppi lækkar matið um 3,6% og í Reykjanesbæ lækkar fasteignamat íbúða um 3,3%.

Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 1,7% að meðaltali á landsvísu, um 1,6% á höfuðborgarsvæðinu en 1,9% á landsbyggðinni.

Fasteignamat sumarhúsa fyrir árið 2021 stendur nánast í stað á milli ára þegar litið er á landið í heild en hækkar að meðaltali um 0,1%.

Fasteignamat sumarhúsa hækkar mest í sveitarfélaginu Ölfusi eða um 7,7% og um 6,8% í Ásahreppi. Mesta lækkun á fasteignamati sumarhúsa er í Skorradalshreppi og sveitarfélaginu Vogum, þar sem matið lækkar um 4,3% á milli ára.

Þjóðskrá Íslands endurmetur yfir 200.000 fasteignir árlega en í ár var gervigreind nýtt til hagnýtingar við matið, að sögn Margrétar.

Nýja fasteignamatið miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2020. Það tekur gildi 31. desember 2020 og gildir fyrir árið 2021. Frestur til að gera athugasemdir við matið er til 30. desember 2020. Á skra.is má sjá breytingu matsins á milli ára.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »