Heimilin eiga sjö þúsund milljarða

Eignir heimilanna á Íslandi jukust í fyrra um tæpa 200 milljarða króna og voru komnar í 7.165 milljarða um seinustu áramót. Þetta kemur fram í samantekt fjármálaráðuneytisins á álagningu opinberra gjalda á einstaklinga fyrir 2019.

Heildareignir landsmanna hafa aukist jafnt og þétt á liðnum árum. Á síðustu tveimur árum hafa þær aukist um 792 milljarða króna og um rúmlega 3.000 milljarða frá árinu 2013 skv. upplýsingum úr Tíund, tímariti Ríkisskattstjóra. Að stærstum hluta er þessi mikla hækkun eigna vegna hækkunar fasteignamats.

Á yfirliti fjármálaráðuneytisins yfir álagninguna á einstaklinga í fyrra kemur fram að fasteignir eru 75% af heildareignum heimilanna og verðmæti þeirra er 5.351 milljarður. Þær hækkuðu um 9,4% í fyrra.

31 þúsund áttu skuldlaust íbúðarhúsnæði í fyrra

Skuldir heimilanna jukust einnig talsvert í fyrra, eða um 7,9% á milli ára. Um áramótin skulduðu heimilin 2.175 milljarða kr. Fram kemur að tæplega 31 þúsund af þeim 104 þúsund fjölskyldum sem eiga íbúðarhúsnæði telja ekki fram neinar skuldir vegna þess. Nettóeign íslenskra heimila jókst um 9,2% í fyrra og nam um síðustu áramót 4.989 milljörðum. Það fækkar í hópi þeirra sem eru með skuldir umfram eignir, en sú þróun hefur verið samfelld í níu ár. Alls skulda hins vegar rúmlega 32 þúsund fjölskyldur umfram eignir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert