Lenti undir framhjóli veghefils og lést

Ingjaldssandsvegur liggur á Ingjaldssandi sem stendur við Önundarfjörð.
Ingjaldssandsvegur liggur á Ingjaldssandi sem stendur við Önundarfjörð. Kort/Google

Stjórnandi veghefils, sem var við vinnu á Ingjaldssandsvegi í júní í fyrra, reyndi að forða sér áður en hefillinn lenti utan vegar en varð að hluta undir framhjóli hefilsins og lést af völdum áverka sem af slysinu hlutust.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa sem birtist í dag.

Þar kemur fram að maðurinn var að bakka niður brekku þegar slysið varð. Sennilegt er að hreyfill hefilsins hafi óvænt drepið á sér vegna ofálags en þegar það gerist hætta hemlar að virka og hefillinn fríhjólar.

Varakerfi fer í gang ef stigið er á hemlafetil en nokkrar sekúndur tekur að virkja hemlana. Hefillinn hefur því runnið aftur á bak, án þess að maðurinn næði að stöðva farartækið. 

Ljósmynd af vettvangi slyssins. Veghefillinn rann aftur á bak út …
Ljósmynd af vettvangi slyssins. Veghefillinn rann aftur á bak út fyrir veginn og valt. Ljósmynd/Rsna

„Ummerki á vettvangi slyssins bentu til þess að hefilstjórinn hafi farið út um dyrnar vinstra megin en lent að hluta undir framhjóli hefilsins. Sennilega fór hefilstjórinn út til þess að reyna að forða sér áður en hefillinn lenti utan vegar. Hefillinn rann út af veginum í krappri beygju og valt á vinstri hlið,“ segir í skýrslunni en engin vitni voru að slysinu.

Samstarfsmaður, sem tilkynnti slysið, kom að heflinum þar sem hann lá utan vegar, með blikkandi vinnuljós og bakkflautu í gangi. Hreyfill hefilsins var þá ekki í gangi.

Rannsóknarnefndin beinir þeirri tillögu til Vinnueftirlitsins að bætt verði inn í bóklega og verklega kennslu til vinnuvélaprófs að ítarlegar sé farið yfir virkni varakerfis fyrir hemla- og stýrisbúnað.

Að mati rannsóknarnefndar samgönguslysa ættu hefilstjórar og stjórnendur annarra vinnuvéla að þjálfa undir öruggum kringumstæðum hvernig búnaður, svo sem hemla- og stýrisbúnaður, hegðar sér ef skyndilega drepst á hreyfli tækisins.

Nefndin gerir enn fremur athugasemdir við að starfsmaður hafi verið einn að störfum þar sem símasamband sé lélegt. Ávallt er hætta á að upp geti komið aðstæður þar sem kalla þarf á aðstoð og leggur nefndin til að fyrirtæki og stofnanir hafi að lágmarki tvo starfsmenn saman við þær aðstæður. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert