Ráðherra féllst á tillögu sóttvarnalæknis

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fallast á tillögu sóttvarnalæknis, sem fjallað var um á fundi ríkisstjórnar í morgun, um breytingu á reglum um komur ferðamanna til Íslands.

Komufarþegum mun standa til boða að fara í sýnatöku á Keflavíkurflugvelli frá og með 15. júní og í framhaldinu á öðrum helstu landamærastöðvum eða framvísa jafngildu vottorði að utan. Annars þurfa þeir að fara í tveggja vikna sóttkví eins og verið hefur, að því er kemur fram í tilkynningu

160 milljóna kostnaður 

Sóttvarnalæknir mun bera meginábyrgð á framkvæmd sýnatöku og greiningu sýna í samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sýkla- og veirufræðideild Landspítala og Íslenska erfðagreiningu en forsætisráðherra hefur skipað samhæfingarteymi sem aðstoðar sóttvarnalækni við undirbúning og framkvæmd verkefnisins.

Bráðabirgðamat bendir til þess að kostnaður við sýnatöku á Keflavíkurflugvelli fyrstu tvær vikurnar frá rýmkun reglna um komu ferðamanna til landsins yrði um 160 milljónir króna ef 500 manns koma til landsins á dag en stefnt er að því að tilkynna á næstu dögum hvað sýnatakan muni kosta farþega.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áhættan virðist ekki vera mikil

„Erfitt er að spá fyrir um hver áhættan er á aukningu á samfélagslegu smiti af völdum COVID-19 hér á landi ef fjöldi ferðamanna eykst að einhverju magni. Smit á Íslandi hjá ferðamönnum eru mjög sjaldséð og ekki hefur tekist að rekja innanlandssmit til ferðamanna. Áhættan virðist þannig ekki vera mikil en hún fer að sjálfsögðu eftir þróun faraldursins erlendis, hvaðan ferðamenn eru að koma og hvaða ráðstafanir eru viðhafðar hérlendis til að lágmarka smithættu,“ segir sóttvarnalæknir í áhættumati sínu.

„Öflugir innviðir eru einnig mikilvægir til að koma í veg fyrir útbreiðslu og sérstaklega hefur víðtæk skimun fyrir sjúkdómnum, smitrakning, einangrun sýktra og sóttkví útsettra einstaklinga sannað gildi sitt. Þó að líklegt sé að sýktir einstaklingar muni greinast áfram hér á landi á næstu vikum og mánuðum þá má fullvíst telja að slíkar sýkingar yrðu ekki útbreiddar vegna öflugra innviða og reynslu viðbragðsaðila sem fengist hefur á undangengnum mánuðum. Íslenskt heilbrigðiskerfi ætti því að vera í stakk búið að fást við frekari sýkingar svo fremi að þær verði ekki útbreiddar.“

Gríðarlegar efnahagslegar afleiðingar

Í hagrænu mati sem var unnið að beiðni forsætisráðherra og einnig kynnt á fundinum í morgun kemur fram að efnahagslegar afleiðingar þess að viðhalda óbreyttu ástandi ferðatakmarkana yrðu gríðarlegar og rétt að draga úr þeim samhliða sóttvarnaaðgerðum. Takmarkaður ferðavilji í heiminum skapi aðstæður til að stíga varfærin skref í átt til opnunar.

„Þar sem kostnaður, kvaðir og óvissa draga úr ferðavilja þarf að vera ljóst að aðgerðir á landamærunum séu skilvirk leið til að verja landið eins og hægt er fyrir Covid-19. Jafnframt er mikilvægt að dregið sé úr óvissu eins og mögulegt er með skýrri upplýsingagjöf. Með því geta ferðamenn tekið upplýstar ákvarðanir út frá væntum kostnaði og ábata af ferðalaginu. Þrátt fyrir það er hætt við að ferðaþjónustan verði ekki svipur hjá sjón á meðan ferðavilji er lítill alþjóðlega og takmarkanir eru við lýði á flugvöllum hérlendis,“ segir í matinu.

„Hætt er við að langan tíma taki þá að byggja upp ferðaþjónustu að nýju og að ekki náist sá fjöldi ferðamanna sem er nauðsynlegur til að viðhalda þeirri fjölbreyttu afþreyingu sem byggð hefur verið upp undanfarinn áratug og þeirri umfangsmiklu umferð sem verið hefur um Keflavík á grundvelli hlutverks flugvallarins sem flutningsmiðju. Af því leiðir að nauðsynlegt er að takmarkanir á landamærum og aðrar sóttvarnaaðgerðir verði áfram í stöðugri endurskoðun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert