Rætt við starfsfólk og farið yfir upptökur

Eldri maður lést í Sundhöll Selfoss í gær.
Eldri maður lést í Sundhöll Selfoss í gær. mbl.is/Sigurður Bogi

Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi rannsakar aðdraganda þess að maður lést við sundiðkun í Sundhöll Selfoss skömmu fyrir hádegi í gær. Krufning á eftir að fara fram.

„Við erum að ræða við starfsfólk, fara yfir myndbandsupptökur og svo fáum við niðurstöður úr krufningunni og það mun leiða okkur að niðurstöðu,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

Atvikið átti sér stað á ellefta tímanum í gær og voru allir sundlaugargestir beðnir um að yfirgefa laugina á meðan sjúkralið og lögregla athöfnuðu sig á vettvangi. Endurlífgun var reynd en bar ekki árangur.

Spurður um aðstæður í Sundhöll Selfoss segir Oddur að það sé hluti af slysarannsókn að skoða þær sérstaklega sem og viðbragð. Sú vinna sé í gangi en það sé ekkert sem bendi til þess að aðstæðum á vettvangi sé ábótavant eða að þær hafi verið orsakavaldur andlátsins í gær.

mbl.is