Stal bíl, beitti ofbeldi á heimili og ók í vímu

Ljósmynd/Lögreglan

Lögreglan handtók mann í Mosfellsbæ á níunda tímanum í gærkvöldi sem er grunaður um margvísleg brot. Maðurinn er grunaður um nytjastuld bifreiðar, heimilisofbeldi, akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum,  vörslu fíkniefna og fleiri brot. Hann er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglunnar. 

Stuttu áður hafði lögreglu verið tilkynnt um umferðaróhapp á Suðurlandsvegi og sagt að tjónvaldur væri að reyna að komast gangandi frá vettvangi. Lögreglumaður sá manninn sem grunaður var um að hafa valdið óhappinu setjast inn í aðra bifreið sem hafði stöðvað fyrir honum.

Stöðvaði lögreglan bifreiðina og handtók tjónvaldinn en hann er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.

Skömmu fyrir miðnætti stöðvaði lögreglan ökumann í  Breiðholti (hverfi 111) sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum og skjalafals, þ.e. með röng skráningarnúmer á bifreiðinni.  Bifreiðin var einnig ótryggð og voru skráningarnúmer hennar klippt af.

Seint í gærkvöldi stöðvaði lögreglan bifreið í miðborginni og er ökumaðurinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna, að hafa ekið án gildra ökuréttinda og vörslu fíkniefna.

Lögreglan stöðvaði annan ökumann í miðborginni á fjórða tímanum í nótt sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, vörslu fíkniefna og brot á lyfjalögum. Ökumaðurinn er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Síðdegis í gær var ökumaður stöðvaður í Árbænum vegna gruns um fíkniefnaakstur. Í nótt var síðan annar ökumaður stöðvaður í sama hverfi fyrir sama brot og reyndist hann ekki vera með ökuskírteinið á sér.  

mbl.is