Vill blása til balls á sjómannadaginn

Sigmar Vilhjálmsson.
Sigmar Vilhjálmsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við erum að vonast til að geta opnað núna um helgina ef öll tilskilin leyfi fást,“ segir Sigmar Vilhjálmsson, athafnamaður. Vísar hann í máli sínu til opnunar Barion Bryggjunar, sem áður bar heitið Bryggjan brugghús. Að hans sögn hefur undirbúningur gengið vel en leggja þurfti í talsverða vinnu til að standsetja veitingastaðinn að nýju. 

„Þetta var verkefni sem kom í raun til okkar. Hérna voru allir grunnþættir í lagi en við þurftum að þrífa og hreinsa ýmislegt. Það var eitthvað sem hefur verið trassað en auk þess þurftum við að fara í smá endurbætur,“ segir Sigmar sem bindur vonir við að búið verði að afgreiða öll leyfi fyrir sjómannadaginn nú á sunnudag. 

„Það hefur af eðlilegum ástæðum verið erfitt að ná í menn enda ekki verið opið síðustu daga. Við erum að vonast til að hægt verði að opna þetta fyrir sjómannadaginn og ef það tekst munum við blása til bryggjuballs. Að öðrum kosti verður þetta að hafa sinn gang og við opnum eftir 10-14 daga,“ segir Sigmar. 

Minigarðurinn opnar í júní

Aðspurður segir Sigmar að Barion Bryggjan verði eins konar félagsheimili fullorðinna. „Þetta er svipað og við höfum gert með Barion í Mosfellsbæ. Það verða viðburðir á kvöldin, mömmumatur í hádeginu og aðstaða fyrir íþróttaáhorf. Sömuleiðis kemur til greina að vera með opið til klukkan 2-3 á nóttunni um helgar þar sem 25 ára aldurstakmark er inn,“ segir Sigmar. 

Auk Barion Bryggjunnar er Sigmar með fleiri járn í eldinum. Að undanförnu hefur hann unnið að opnun Minigarðsins í Skútuvogi, en opnun garðsins nálgast óðfluga. „Við erum að stefna á að opna einhvers staðar á milli 19. júní og þess þrítugasta. Það er gríðarlega spennandi verkefni,“ segir Sigmar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert