Ákærður fyrir brot gegn þremur drengjum

Maðurinn var handtekinn í janúar.
Maðurinn var handtekinn í janúar. mbl.is/Eggert

Bandarískur karlmaður hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn þremur ungum drengjum. Ákæran var þingfest um miðjan maí og hefur maðurinn játað brot sín að hluta, að því er fram kemur á vef Ríkisútvarpsins.

Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í lok janúar.

Er hann ákærður fyrir kynferðisbrot, kynferðislega áreitni, brot gegn barnaverndarlögum og brot á lögum um ávana-og fíkniefni. Brotin munu hafa beinst gegn þremur drengjum og svo virðist sem maðurinn hafi verið mislengi í samskiptum við þá.

Miskabótakröfur á hendur manninum hljóða samtals upp á rúmlega 3,6 milljónir króna, en honum er meðal annars gefið að sök að hafa rætt ítrekað við drengina um andlega vanlíðan sína, sjálfskaða og sjálfsvígshugsanir. Þannig hafi hann beitt þá andlegum ógnunum og sýnt af sér vanvirðandi háttsemi.

mbl.is