Ferðaþjónustan fyrir faraldur var bóla

Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði, var með áhugavert erindi á …
Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði, var með áhugavert erindi á málþingi Háskóla Íslands í dag. Mynd úr safni. Ómar Óskarsson

Opnun landamæra getur aukið hagvöxt ef erlendir ferðamenn koma hingað, minnkað hagvöxt ef Íslendingar fara til útlanda í innkaupaferðir eða ferðalög og stefnt hagvexti í voða ef opnunin leiðir til annarrar bylgju faraldurs í haust og vetur.

Þetta kom fram í máli Gylfa Zoëga, pró­fess­or í hag­fræði og full­trúi í pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabank­ans, í erindi hans „Er opn­un landa­mæra for­senda efna­hags­bata?" á málþingi Háskóla Íslands „Út úr kóf­inu – heilsa, efna­hag­ur og stjórn­mál“.

Hagkerfið nær sér á strik ef við sleppum við aðra bylgju

Niðurstaða Gylfa er að hagkerfið muni ná sér á strik þó svo að hingað komi ekki fjöldi ferðamanna á þessu ári og viðsnúningurinn verður hraður, að því gefnu að annar faraldur blossi ekki upp í haust.

Og í óvissuástandi sé betra að taka lítil og fá skref fram á við til þess að hægt sé að stöðva fljótt ef stefnir í óefni.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, …
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ræddu málin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stór hluti ferðaþjónustunnar óstarfhæfur fyrir faraldur

Ferðaþjónustan fyrir faraldur var bóla að mati Gylfa og að brestirnir í greininni hefðu verið komnir í ljós fyrir ári síðan.

„Það að láta láglaunagrein þenjast svona hratt út eins og hún gerði hér var óráð, algjört óráð. Og brestirnir voru komnir í ljós fyrir einu ári síðan,“ sagði hann og nefndi verkföll og launahækkanir „sem töldust vera hóflegar en sviptu í raun grundvellinum undan rekstri fjölda staða“.

Sagði hann stóran hluta ferðaþjónustunnar hafa verið orðin óstarfhæfan fyrir faraldur og að atvinnugreinin hefði gefið eftir óháð heimsfaraldri kórónuveiru. „Það er ekki skynsamlegt að byggja allan hagvöxt í svona langan tíma á láglaunagrein sem krefst lágt launaðs atvinnuafls frá útlöndum,“ sagði hann og bætti við: „Þetta var bóla, ekki eðlilegt ástand.“

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, var ekki sammála Gylfa …
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, var ekki sammála Gylfa um að ferðaþjónustan fyrir faraldur hefði verið bóla og sagðist vilja ræða þá kenningu Gylfa yfir kaffibolla síðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Erum komin aftur til ársins 2016

Sagði hann að þrátt fyrir slæma stöðu núna þá væri ekki um heimsendi að ræða og að samdrátturinn væri í raun að færa okkur aftur til ársins 2016. „Við getum þolað það í eitt ár,“ sagði hann.

Vandamálið væri aftur á móti það að þó höggið væri ekki eins mikið og margir áttu von á þá hefði það og mun lenda á einni atvinnugrein og fólkinu í þeirri grein.

Stjórnvöld haldi reglulega fundi um efnahagsaðgerðir

Að lokum nefndi hann að æskilegt væri að haldnir yrðu reglulegir fundir, til dæmis vikulega, þar sem efnahagsaðgerðir stjórnvalda væru kynntar, ekki ósvipað upplýsingafundum vegna kórónuveirunnar. Þar væri hægt að gefa atvinnurekendum og öðrum kost á að fá svör við spurningum og eyða óvissu.

Þá sagði hann að það væri nauðsynlegt fyrir Alþingi að hafa aðgang að hagfræðilegri greiningu á aðgerðum stjórnvalda. Þannig væri hægt að meta árangur aðgerða og finna út hvaða aðgerðir valdi minnstu tjóni sem og að læra af reynslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert