Maðurinn þekkti vel til á dvalarheimilinu

Lögreglan lauk rannsókn málsins í ágúst í fyrra.
Lögreglan lauk rannsókn málsins í ágúst í fyrra. mbl.is/​Hari

Maðurinn um sjötugt sem er ákærður fyrir að hafa nauðgað tveimur konum um áttrætt sem eru með alzheimer á háu stigi framdi meint brot á dvalarheimili á höfuðborgarsvæðinu.

Að sögn Bylgju Hrannar Baldursdóttur, aðstoðaryfirlögregluþjóns á kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, var maðurinn hvorki starfsmaður dvalarheimilisins né vistmaður. Aftur á móti þekkti hann vel þar til. Við rannsókn málsins komu ekki upp grunsemdir um að maðurinn hefði framið fleiri brot. Hann hefur ekki áður orðið uppvís að samskonar athæfi.

Héraðssaksóknari.
Héraðssaksóknari. mbl.is/Hjörtur

Lögreglunni barst tilkynning frá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu í október árið 2018 um mögulegt brot gegn konu á dvalarheimili. Í því tilfelli er hann ákærður fyrir að hafa nauðgað henni þrívegis haustið 2018. Við rannsókn málsins kom upp annað meint brot karlmannsins gegn annarri konu á sama heimili árið 2017.

Skýrslur teknar af mörgum

Aðspurð segir Bylgja Hrönn að erfiðara sé að ná framburði frá fólki sem hefur greinst með alzheimer en að nóg hafi fengist til að hægt var að halda áfram með málið. Ekkert kemur fram í lögregluskýrslu um að eftirlitsmyndavélar hafi tengst rannsókninni. Skýrslur voru teknar af mörgu fólki og kom vitnisburðurinn að góðum notum við rannsóknina.

Rannsókninni lauk í ágúst í fyrra þegar málið var sent til héraðssaksóknara. Álíka mál hafa ekki komið á borð lögreglunnar nýverið, að sögn Bylgju Hrannar. Eitthvað er þó um að kynferðisbrot gegn öldruðum komi upp.

mbl.is