Mótmæla uppsögnum flugumferðarstjóra

Alþjóðasamtök flugumferðarstjóra mótmæla uppsögnunum.
Alþjóðasamtök flugumferðarstjóra mótmæla uppsögnunum. mbl.is/Ernir

Alþjóðasamtök flugumferðarstjóra, IFACTA, hafa sent bréf til framkvæmdastjóra Isavia ANS þar sem uppsögnum fyrirtækisins á um eitt hundrað flugumferðarstjórum um nýliðin mánaðamót er mótmælt harðlega og það hvatt til að draga uppsagnirnar til baka. 

Fram kemur í bréfinu að með uppsögnunum valdi Isavia ANS alvarlegri röskun á þeirri þjónustu sem hefur verið veitt og að þær hafi afar neikvæð áhrif á starfsanda flugumferðastjóra.

„Flugumferðarstjórar eru ekki „verslunarvörur“ sem er hægt að geyma uppi á hillu í ákveðinn tíma til að „reka og ráða“ og virkja á nýjan leik án alvarlegra afleiðinga fyrir þjónustuna og á endanum dregur þetta úr öryggi. Án flugumferðarstjóra verður ekkert flogið til og frá Íslandi yfir Norður-Atlantshafið og/eða Evrópu þegar flugumferð hefst á nýjan leik,“ segir í bréfinu.

Einnig kemur þar fram að mikilvægt er að ríkisstjórnir styrki innviði á meðal flugumferðastjóra á meðan á kórónuveirunni stendur, rétt eins og þær hafa gert í tengslum við aðra þætti í tengslum við flugiðnaðinn. „IFACTA telur að uppsagnir á afar hæfu fólki og/eða að ráðast í óafturkræfar hagræðingaraðgerðir muni hægja á bata flugiðnaðarins og að þær beri að forðast.“  

mbl.is/Ernir Eyjólfsson

BSRB mótmælir uppsögnunum

Í ályktun aðalfundar BSRB um uppsagnir flugumferðarstjóra er uppsögnunum sömuleiðis mótmælt harðlega.

„Það eru alvarleg stjórnunarmistök fyrirtækis sem þarf að hagræða í rekstri að beita ósanngjörnum aðferðum og virða að vettugi samráð við starfsfólk sitt og stéttarfélag þess,“ segir í ályktuninni.

Fram kemur að ríkur skilningur sé á þörf Isavia ANS til að hagræða í rekstri en óskiljanlegt að ekki hafi verið haft raunverulegt samráð við Félag íslenskra flugumferðarstjóra. Tillögur þeirra til að mæta vandanum hafi verið hunsaðar og leið valin í staðinn sem brjóti í bága við kjarasamning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert