Vöknuðu við ókunnugan mann í stofunni

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Óskað var aðstoðar lögreglu á Vestfjörðum aðfaranótt þriðjudags vegna manns sem var kominn, óboðinn, inn á heimili á Ísafirði. Húsráðendur vöknuðu við að maðurinn var inni í stofu heimilisins. Lögreglan fjarlægði manninn út úr íbúðinni og var honum komið til síns heima. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Vestfjörðum.

Grjótskriða féll á Vestfjarðaveg fyrir innan Auðshaug á Barðaströnd á laugardag. Um var að ræða 3-4 tonna grjót að sögn tilkynnanda. Vegagerðin brást skjótt við og hreinsaði veginn.

Talsvert var um kvartanir vegna samkvæmishávaða í heimahúsum á Ísafirði um hvítasunnuhelgina. Lögregla var kölluð til og lofaði fólk að stilla hávaða í hóf og taka tillit til nágranna. 

Tjónvaldur undir áhrifum fíkniefna

Tilkynnt var um umferðaróhapp við gangamunna Vestfjarðaganga í Tungudal í síðustu viku. Jeppabifreið hafði verið ekið utan í gangavegginn og varð óökufær eftir óhappið. Þegar lögreglan kom á vettvang vaknaði grunur um að ökumaður væri undir áhrifum fíkniefna. Var hann því handtekinn og fluttur á lögreglustöð vegna rannsóknar malsins.

Bílvelta varð á Hrafnseyrarheiði á föstudag. Ökumaður ásamt þremur börnum sluppu öll án teljandi meiðsla, enda notuðu þau öryggisbelti og viðeigandi öryggisbúnað að sögn lögreglu.

Númer voru fjarlægð af átta bifreiðum í vikunni sem leið vegna vanrækslu á lögbundinni skoðunarskyldu og vangreiddum tryggingum. Átta ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók reyndist vera á 122 km/hraða á Djúpvegi í Arnkötludal þar sem leyfilegur hraði er 90 km.

mbl.is