Björn Ingi og félagar sýknaðir

Björn Ingi Hrafnsson er nú ritstjóri Viljans.
Björn Ingi Hrafnsson er nú ritstjóri Viljans. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjaness sýknaði í dag Björn Inga Hrafnsson, Arnar Ægisson og Stein Kára Ragnarsson af kröfu Íslandsbanka upp á tíu milljónir auk dráttarvaxta vegna skulda DV við bankann. Þá er Íslandsbanka gert að greiða þremenningunum 600.000 krónur í málskostnað á mann. 

Árið 2015 undirrituðu Björn, Arnar og Steinn yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð að hámarki 10 milljónum króna hjá Íslandsbanka auk verðbóta, vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar til tryggingar öllum skuldum og fjárskuldbindingum sem DV hafði eða myndi gangast undir gagnvart Íslandsbanka. Sama dag og mennirnir undirrituðu yfirlýsinguna felldi Íslandsbanki úr gildi eldri ábyrgðir á  skuldum og fjárskuldbindingum DV.

Tveimur árum síðar var útgáfuréttur DV ehf. seldur Frjálsri fjölmiðlun en ætlunin var að kaupin yrðu meðal annars greidd með yfirtöku skulda DV, þar á meðal skuldar DV við Íslandsbanka að fjárhæð 18 milljónum króna. Nýir eigendur höfnuðu því að gangast við nýjum ábyrgðayfirlýsingum og greiddu upp skuld DV við bankann.

Segja skuldina greidda upp án vitundar bankans

Krafa bankans byggir á því að nýir eigendur DV hafi ekki samþykkt nýja sjálfskuldaraábyrgð og jafnframt ekki samþykkt yfirtöku skuldarinnar. Þeir hafi greitt skuldina upp án vitundar eða samþykki bankans. 

Steinn Kári hafði nokkru áður sagt sinni ábyrgðayfirlýsingu en bankinn telur að skuldin sem mennirnir þrír hafi átt að tryggja sé enn ógreidd. Þar sem ábyrgðaryfirlýsing þeirra gildi enn beri þeim að greiða skuldina en sjálfskuldaraábyrgðin féll ekki endanlega niður fyrr en skuldin var uppgreidd eða önnur trygging sett fyrir greiðslu hennar. 

Í niðurstöðu dómsins er sagt að þremenningarnir séu sýknaðir á grundvelli þess að skuld DV við Íslandsbanka hafi verið uppgreidd og ábyrgðaryfirlýsing mannanna því fallið úr gildi en engar frekari skuldir voru af hálfu DV við Íslandsbanka sem ábyrgðin átti að tryggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert