Býst við handtökum á Íslandi vegna Samherjamálsins

Bern­h­ar­dt Esau, fyrrverandi sjáv­ar­út­vegs­ráðherra Namib­íu, er einn sjö ákærðra.
Bern­h­ar­dt Esau, fyrrverandi sjáv­ar­út­vegs­ráðherra Namib­íu, er einn sjö ákærðra. Ljósmynd/Sjávarútvegsráðuneyti Namibíu

Ed Marondedze, staðgengill ríkissaksóknara í Namibíu, segir að búist sé við því að fleiri verði handteknir vegna mútuhneykslis í Namibíu og fólk verði bæði handtekið á Íslandi og í Angóla. Nú þegar hafa þó nokkrir verið handteknir í Namibíu vegna málsins sem hefur verið mikið til umfjöllunar hérlendis vegna tengsla þess við íslenska sjávarútvegsfyrirtækið Samherja. Namibíski miðillinn Namibian Sun greinir frá þessu.

Namibíska ríkinu hefur verið gefinn meiri tími til að ljúka rannsóknum sínum á málinu og hefur því verið frestað til 28. ágúst næstkomandi en áður hafði því verið frestað til 29. maí.

Tinashe Chibwana, lögfræðingur eins sexmenninganna sem ákærðir eru, segir að ríkið beiti með þessu gæsluvarðhalds án réttarhalda og sagði að ekkert hefði verið rannsakað í málinu síðan í nóvember en þá voru hinir grunuðu handteknir.

Rannsóknin teygir sig yfir átta lönd

Bernhardt Esau, fyrrum sjávarútvegsráðherra Namibíu, er á meðal hinna ákærðu ásamt Sacky Shanghala, fyrrum dómsmálaráðherra landsins, James Hatuikulipi, fyrrum forstjóra bankans Investec, Ricardo Gustavo, þjónustustjóra bankans, Pius Mwatuleo, starfsmanni fjárfestingafyrirtækisins Hanganeni, og Tamson Hatuikulipi, tengdasons Esau. Mike Nghipunya, forstjóri ríkisfyrirtækisins Fishcor var einnig handtekinn vegna málsins í febrúar síðastliðnum.

Marondedze segir að ákæruvaldið þurfi meiri tíma til að rannsaka málið þar sem málið er umfangsmikið og rannsókn þess fer fram í nokkrum Afríkuríkjum, Evrópu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum. 

Málið snertir Angóla, Lýðveldið Kongó, Simbabve, Spán, Ísland, Kýpur, Dubai, Svíþjóð og Noreg. 

Gæsluvarðhald síðan í nóvember

Í síðustu viku mótmælti Chibwana frestun málsins og hvatti ríkið til að ákveða hvenær réttarhöldin færu fram ellegar að taka málið af dagskrá. Þá sagði hann að frestun réttarhaldanna væri brot á rétti skjólastæðings hans.

Við því sagði Marondedze: „Ríkið vinnur allan sólarhringinn við að ljúka rannsóknum og hefja réttarhöldin en lengri tími er nauðsynlegur til að ljúka rannsókninni.“

Sexmenningarnir sem voru handteknir í nóvember í fyrra hafa verið í gæslu­v­arðhaldi síðan þá. Ng­hip­unya hef­ur verið í gæslu­v­arðhaldi síðan hann var handtekinn í febrúar.

mbl.is